143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

samningar við erlenda kröfuhafa.

[10:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Stærsta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar eru samningar við erlenda kröfuhafa. Sú varðstaða sem hæstv. ráðherra nefndi um íslensk heimili og fyrirtæki er gríðarlega mikilvæg og að það sé talað skýrt.

Ég spyr þess vegna hæstv. fjármálaráðherra þegar hann segir að það sé mikilvægt að allir líti málið sömu augum: Er það skilyrði af hálfu ríkisstjórnarinnar í viðræðum við erlenda kröfuhafa að í samningunum felist lækkun á verðtryggðum skuldum heimilanna um 15–20% án þess að það leiði til aukinnar skuldsetningar ríkissjóðs? Er það skilyrði fyrir aðgerðum í skuldamálum heimilanna af hálfu fjármála- og efnahagsráðherra að þær leiði ekki til aukinnar skuldsetningar ríkissjóðs? Er það rétt haft eftir hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að hugmyndir um aðgerðir í skuldamálum séu vangaveltur? Hefur ríkisstjórnin ekki tekið ákvörðun um að leiðrétta og lækka verðtryggð lán heimilanna í landinu sem nemur verðbólguskotinu hér á árunum í kringum hrun? Hefur sú ákvörðun ekki verið tekin og má ekki vænta útfærslunnar á þeirri ákvörðun úr nefndum ríkisstjórnarinnar nú í nóvember, eins og hæstv. forsætisráðherra hefur lýst yfir? Er það líka rétt haft eftir hæstv. fjármálaráðherra að þær nefndir muni ekki skila í nóvember heldur vonandi fyrir áramót? Enn fremur, er rétt haft eftir fjármála- og efnahagsráðherra í erlendum fjölmiðlum að aðgerða sé ekki að vænta fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári í skuldamálum heimilanna?

Þetta eru gríðarlega mikilvæg mál sem snerta fjölda Íslendinga. Ég tel ákaflega mikilvægt að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra tali alveg skýrt úr þessum ræðustóli um það hvoru við eigum að trúa, því sem haft er eftir honum í fjölmiðlum eða kosningaloforðum Framsóknarflokksins.