143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

samningar við erlenda kröfuhafa.

[10:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort mér tekst á skömmum tíma að vinda ofan af öllu því sem rangt var farið með í þessari stuttu ræðu. Við skulum byrja á því sem snýr að svokölluðum samningum við kröfuhafa. Stjórnvöld eru ekki í sjálfu sér að fara í neina samninga við kröfuhafa. Væntanlega verður hlutverk stjórnvalda fyrst og fremst að miðla upplýsingum um það sem við teljum að sé raunhæft varðandi greiðslujöfnun fram á við og í framhaldinu reynir þá á það að slitastjórnir komi fram undanþágubeiðnum til Seðlabankans sem falla innan þess ramma sem stjórnvöld telja mögulegt. Gangi þetta ekki eftir verður leitað annarra leiða til að leysa úr höftunum og uppgjöri þrotabúanna og annarra viðfangsefna sem tengjast því.

Varðandi skuldamálin leiðir af þessu svari mínu að stjórnvöld eru ekki að fara í neina samninga við kröfuhafa um skuldamál heimilanna. Það hefur hins vegar ekkert breyst að skuldamál heimilanna eru í sérstakri nefnd sem ákveðin var á sumarþingi. Þaðan munu berast tillögur, vænti ég, annars vegar í nóvember og hins vegar í desember, eftir því hvort við horfum á skuldaleiðréttinganefndina eða verðtryggingarnefndina. Það er mitt álit að síðan þurfi að taka þær tillögur til skoðunar og eftir atvikum til meðferðar hér í þinginu.

Þegar á það er horft er ég ekkert sérstaklega vongóður um að við verðum búin að fá hugmyndir, vinna úr þeim, tefla fram þingmálum og klára þau í gegnum þrjár umræður fyrir jól. Ég skal bara viðurkenna það, ég er ekkert sérstaklega vongóður um það. En ekkert hefur breyst varðandi það að það er ætlun stjórnarflokkanna að vinna í þeim vanda sem okkur hefur lengi birst í slæmri stöðu heimilanna, í skulda- og greiðsluvanda heimilanna. Ég vænti þess að hv. þingmaður sé mér sammála um að það er alvarlegt mál sem við getum ekki talað um af einhverri léttúð hér í þingsal.