143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

samningar við erlenda kröfuhafa.

[10:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og menn muna frá kosningabaráttunni fyrr á þessu ári voru uppi hugmyndir um margvíslegar leiðir til að ná því markmiði að lækka höfuðstól verðtryggðra lána heimilanna. Það þarf ekki eingöngu að gerast með einhvers konar samkomulagi eins og hv. þingmaður er að vísa hér til við kröfuhafa vegna afnáms hafta. Það sem skiptir máli varðandi afnám haftanna er að greiðslujöfnuði Íslendinga gagnvart útlöndum sé ekki ógnað þegar upp er staðið. Í því sambandi verður ekki horft til þess svigrúms sem þarf að vera til staðar vegna skuldavanda heimilanna. Það verður fyrst og fremst horft til þess hvað er raunhæft að við Íslendingar getum aflað í gjaldeyri til þess að standa undir þegar útgefnum skuldbindingum og öðrum skuldbindingum sem leiða af hruni fjármálakerfisins og eru ástæðan fyrir höftunum.

Við skulum hafa það í huga að ef höftin væru ekki til staðar yrðu íslenskar krónueignir þrotabúanna (Forseti hringir.) og annarra þeirra sem eiga slíkar eignir á Íslandi miklum mun verðminni vegna falls krónunnar á markaði.