143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

varðveisla handritanna í Þjóðmenningarhúsinu.

[10:53]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er kannski ástæðan fyrir því sem hér hefur verið minnst á, að hæstv. forsætisráðherra er ekki í salnum og hefur ekki verið lengi og því ekki hægt að beina til hans fyrirspurnum, að búið er að færa til ákveðna hluti á milli ráðuneyta.

Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningunni um hvort hann hyggist beita sér fyrir því að tryggja að handritin geti verið til sýnis á afmælisdaginn og í kringum þá hátíð. Við skulum átta okkur á því að þetta eru ekki verðlaunagripir sem rykfalla í hillu, það þarf að halda handritunum við og hugsa um þau þannig að hægt sé að miðla þeim. Það er mjög mikilvægt.

Frestun á byggingu hússins, það má svo sem segja að þetta safn ásamt mörgu öðru hafi beðið þess að betur ári í ríkisbúskapnum. Það hefur ekki gert það síðan 1971 miðað við að við erum á svipuðum stað og verið hefur. Það er kominn tími til að sinna þessu betur.

Það má líka minna á að (Forseti hringir.) handritin komust á heimsminjaskrá UNESCO 2009 þannig að það er ekki eins og við séum ekki með eitthvað afar merkilegt í fanginu. Því spyr ég: Hvað ætlar þessi (Forseti hringir.) þjóðmenningarlega ríkisstjórn að gera til að sýna það að hún sinni þessum arfi?