143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

flóttamenn frá Sýrlandi.

[11:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Það er alveg rétt að það er gríðarlegur fjöldi flóttamanna frá Sýrlandi og gríðarleg vandamál sem herja á landið. Það eru 45–50 milljónir manna á flótta í heiminum í dag þegar allt er tekið saman, að því er talið er. Við gerum okkur að sjálfsögðu grein fyrir að málið er mjög alvarlegt í Sýrlandi í dag. Það er ánægjulegt að sjá að margar þjóðir heims eru að bregðast við ákalli Sameinuðu þjóðanna um að gera meira en gert hefur verið.

Það sem við munum gera er að setjast að sjálfsögðu yfir málið og kanna hvað við getum gert. Við munum meta það bæði út frá þeirri stöðu sem Ísland er í, stærð landsins, fjármunum og öðru slíku. Okkur ber öllum að sjálfsögðu að leggja af mörkum það sem við getum.

Við höfum í gegnum árin og varðandi næstu flóttamenn unnið með Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og öðrum til að reyna að finna út hvað við getum best gert. Það sem við gerum svo í framhaldinu er að við leggjumst yfir þetta með velferðarráðuneytinu, veltum því fyrir okkur hvort við getum lagt meira af mörkum og þá hvernig. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, þetta er erfitt, þetta er flókið mál. Við höfum ekki öll sömu tækifæri og einmitt Svíþjóð að segja að við getum tekið við öllum sem vilja koma. Það er svo margt sem spilar inn í þetta.

Það sem mestu skiptir þegar við ræðum um ástandið í Sýrlandi og stöðu flóttamanna er að við spyrjum okkur: Eru þær þjóðir og þau stóru ríki sem eru kannski helst líkleg til að geta leyst vandann í raun og veru að reyna að leysa málið? Er verið að reyna að stöðva styrjöldina í Sýrlandi þannig að flóttamenn geti á einhverjum tímapunkti snúið heim til sín? Ég held að það sé því miður of lítið að gerast þar og of hægt. En við munum að sjálfsögðu skoða (Forseti hringir.) þetta mál eins vel og við getum.