143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

framtíðarsýn varðandi fæðingarorlof.

[11:26]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu. Að mínu viti snýst hún um framtíðarstefnu og framtíðarsýn fyrir Fæðingarorlofssjóð. Það er gott og blessað að menn séu ánægðir með löggjöf frá 2003. Við erum það, við erum ánægð með löggjöfina frá 2003, en að sjálfsögðu þurfum við að þróa hana áfram í takt við það samfélag sem við búum nú í, tíu árum síðar. Mér finnst grundvallaratriði, því að þetta er auðvitað ekki statískt fyrirbæri, að við mótum hér einhverja sýn.

Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að mikilvægara væri að hækka tekjumörkin en að ráðast í lengingu og eins og hv. þingmaður sem talaði á undan mér benti á hafa verið uppi ólík sjónarmið um það. Ég vil nota tækifærið og benda á að níu mánaða fæðingarorlof þykir ekki sérstaklega langt ef við berum okkur saman við nágrannaríki okkar. Víða annars staðar á Norðurlöndum er fæðingarorlofið lengra og sú lenging sem var hér lögfest, á síðasta þingi ef ég man rétt, hélt í þau sjónarmið sem voru í löggjöfinni frá 2003, þ.e. að markmiðið væri að báðir foreldrar gætu notið samvista með barni sínu. Lengingin skiptir máli af því að við vitum það öll hér, og það er mikilvægt að halda því til haga, að bilið milli loka fæðingarorlofs og öruggrar dagvistunar fyrir börn getur reynst mörgum foreldrum á Íslandi í dag mjög erfitt að brúa.

Við getum ekki horft fram hjá því. Við þingmenn Vinstri grænna höfum lagt fram þingsályktunartillögu sem snýst einmitt um að brúa þetta bil. Fólk getur ekki sinnt vinnu sinni sem skyldi í einhvern tíma, dagvistun getur verið mjög óörugg, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu þar sem getur reynst erfitt að finna dagvistun fyrir svo ung börn. Mér finnst það ábyrgðarhluti af hálfu okkar hv. þingmanna að við stígum einhver skref til að brúa þetta bil og eigum samtal við sveitarfélögin um það hvernig svo megi tryggja dagvistun á móti. Þetta (Forseti hringir.) skiptir miklu máli fyrir atvinnumöguleika ungs fólks, hvort sem er mæðra eða feðra, og það vitum við öll sem erum búin að standa í þessu undanfarin ár.