143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

framtíðarsýn varðandi fæðingarorlof.

[11:31]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni innilega fyrir að hefja þessa umræðu. Hún er svo sannarlega nauðsynleg í okkar samfélagi og sérstaklega í dag. Ég tek undir allt það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í ræðustól áðan. Það verður að vera skýr stefna, langtímaáætlun um hvenær við á Íslandi getum loksins staðið jafnfætis nágrönnum okkar annars staðar á Norðurlöndum þegar kemur að fæðingarorlofi. Fólk skipuleggur sig nefnilega í dag, það gerir áætlanir. Ég veit að þetta hljómar mjög óspennandi en það sést til dæmis mjög skýrt á meðalaldri frumbyrja, hvað hann hækkar ört í íslensku samfélagi, og barnagildi á hverja móður, sem er að detta undir tvö börn, að hér erum við farin að skipuleggja okkur mun betur.

Ríkisvaldið þarf einnig að geta skipulagt sig og sýna sömu vinnubrögð og móta langtímaáætlun, framtíðarsýn um hvert við stefnum með fæðingarorlofslöggjöfina okkar og sjóðinn. Að mínu viti gengur heldur ekki að skella bara á, á núll einni, mikilli lengingu í einu skrefi. Þá getur skipt sköpum ef fæðingin verður 31. desember ef löggjöfin á að taka gildi 1. janúar. Það er mín sýn og mín bjargfasta skoðun að þetta verði að vera stigvaxandi ferli og það verði að vera lenging.

Ég hef sömu áhyggjur og hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttir af fækkun karla sem taka sér fæðingarorlof en það tengist einnig kynbundnum launamun í íslensku samfélagi sem ráðherra jafnréttismála verður að taka markvisst á.