143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

framtíðarsýn varðandi fæðingarorlof.

[11:35]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa mikilvægu umræðu. Eitt af því sem fyrrverandi ríkisstjórn gerði síðasta árið sem hún var við völd var að lengja fæðingarorlofstímann úr níu mánuðum í tólf. Það er mjög göfugt markmið en því miður er ekki hægt að standa við þetta loforð því að við Íslendingar höfum einfaldlega ekki efni á því sem stendur. Það ætti að vera markmið okkar í framtíðinni þegar ríkissjóður er kominn úr þeim fjárhagsþrengingum sem hann er í núna. Það mun taka nokkur ár að snúa þeirri þróun við. Til að vera alveg hreinskilin verðum við að fara mjög gætilega eins og stendur og velta fyrir okkur hverri einustu krónu sem rennur úr þessum sameiginlega sjóði landsmanna.

Í fjárlagafrumvarpinu 2014 sem nú liggur fyrir Alþingi er því gert ráð fyrir að hætt verði við fyrirætlanir fyrrverandi ríkisstjórnar um að lengja fæðingarorlofið. Hins vegar á að hækka launaþak í orlofinu og það er mjög skynsamleg ráðstöfun.

Við Íslendingar verðum að fara að taka okkur alvarlega taki í rekstri hins opinbera. Við erum sjálf að skerða eigin lífskjör til lengri tíma með þeim framgangsmáta að eyða stöðugt um efni fram. Hvað með þær kynslóðir sem eiga eftir að erfa þetta land? Er þetta það bú sem við ætlum að skilja eftir okkur, skuldugan ríkissjóð upp í rjáfur og vaxtagreiðslur á hverju ári sem samsvara hátt í tveimur nýjum landspítölum?

Ég spyr líka: Hver er eiginlega hugsunin á bak við það að lofa fólki hlutum sem maður veit að maður hefur ekki efni á og þarf að fara í bankann til að taka lán fyrir þeim og láta svo sama fólk á endanum borga brúsann?

Eitt veldur mér áhyggjum. Ég tek undir það með hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttur að það er áhyggjuefni að svo fáir nýta sér það í dag framfaraskref sem hér var stigið fyrir nokkrum árum, að feður fengju rétt til að taka fæðingarorlof. (Forseti hringir.) Margir nýttu sér það til að byrja með.