143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

8. mál
[12:01]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Á sunnudaginn kemur er liðið ár frá mjög merkum atburði hér á landi. Þá voru tillögur stjórnlagaráðs bornar undir þjóðina og hún beðin að segja hug sinn annars vegar til hvers ætti að nota tillögurnar sem unnið hefur verið að á margvíslegan hátt eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir kom inn á hér áðan, hvort þær ættu að vera grundvöllur nýrrar stjórnarskrár, og hins vegar var spurt um nokkra sérstaka efnisflokka eins og við þekkjum flest.

Þetta var mjög merkileg atkvæðagreiðsla. Í fyrsta lagi tel ég að hún hafi verið mjög merkileg vegna þess hve vel hún var sótt. Helmingur þjóðarinnar eða svo gott sem tók þátt í henni. Það þykir mjög góð þátttaka á mælikvarða allra í slíkri atkvæðagreiðslu, ekki síst í ljósi þess að eins og stjórnarskránni er nú háttað gat atkvæðagreiðslan einungis verið ráðgefandi. Atkvæðagreiðslan var ekki síður merkileg vegna þess hvernig atkvæði fóru, að tæplega 65% þjóðarinnar skyldi segja: Jú, það á að nota plaggið sem fyrir liggur sem grundvöll að nýrri stjórnarskrá.

Engu að síður sáum við í þessu húsi — ég hlýt að segja við þó að ég hafi barist fyrir því að það færi öðruvísi en ég er samt sem áður hluti af því sem gerist í þessu húsi og er þess vegna alltaf hluti af þeim ákvörðunum sem hér eru teknar hvort sem þær eru mér þóknanlegar eða ekki; Alþingi ákveður og ég verð að hlíta því. Þess vegna segi ég við. Okkur þótti einskis vert að fara eftir vilja þjóðarinnar. Það var bara ákveðið að þetta skipti engu máli. Samt sem áður var búið að reyna í nefndum þingsins, í starfi með sérfræðingum, í samstarfi við hina og þessa að koma til móts við hin ólíku sjónarmið sem voru um hvort þarna mætti nota almennt mál eða hvort það ætti að nota lagamál, hvort það ætti að gera þetta eða gera hitt. Reynt var eins og hægt var að koma til móts við hin ólíku sjónarmið. En þeir sem ekki vildu framgang málsins notfærðu sér þetta eina tæki sem er náttúrlega ekkert annað en ofbeldi, þ.e. þegar menn hóta því að tefja mál þannig að þau komist ekki áfram, sem er kallað málþóf. Þeir vildu aldrei ræða málið. Þeir komu aldrei með neina tillögu. Þeir voru ekki tilbúnir til neinna málamiðlana vegna þess að þeir vildu einir ráða.

Þetta er merkilegur dagur í sögu íslenskrar þjóðar, held ég, 20. október árið 2012.

Síðan var ákveðið í einhverju sem kallað var málamiðlun — ég var líka andstæð því, taldi að við ættum að fara aðra leið en gott og blessað — að breyta málinu þannig að hugsanlega væri hægt að breyta stjórnarskránni í einhverjum áföngum á þessu kjörtímabili ef verða vildi og þá ætti að skipa nefnd sem fjallaði um þau atriði. Ég tek hjartanlega undir þessa þingsályktunartillögu, að sú nefnd sem heldur áfram hljóti að byggja á þeirri miklu vinnu sem unnin hefur verið hingað til og í anda þess sem meiri hluti þjóðarinnar vill.

Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir sagði að nefndin hefði komið saman. Eftir því sem ég best veit þá hefur nefndin ekki verið skipuð. (BirgJ: … ekki verið skipuð.) — Nei, hún hefði ekki komið saman, sagði hún. Eftir því sem ég best veit hefur nefndin ekki verið skipuð. Alla vega var ég tilnefnd af mínum þingflokki til að fara í þessa nefnd, við verðum reyndar tvö vegna þess að í anda jafnréttis kynjanna þarf að tilnefna tvo þannig að ég var tilnefnd og einnig hv. þm. Helgi Hjörvar. Ég veit ekki hvort okkar verður í þessari nefnd, nefndin hefur ekki verið skipuð. Það er því ýmislegt sem frestast, ýmislegt tekur mjög langan tíma. Það er skiljanlegt að sumir hlutir taki mjög langan tíma ef þarf að leggjast í langar rannsóknir og alls konar vesen, en að skipa níu manna nefnd þegar öll nöfn og tilnefningar liggja fyrir sé ég ekki alveg hvað tefur.

Ég ætla ekki að fara í einstök atriði sem eru í þeim merku tillögum sem fyrir liggja. Ég verð að segja alveg eins og er að mér þykir vænna um þetta plagg með hverjum deginum og þeim mun meira sem ég vinn með það þykir mér vænna um það, enda yrði annað aumkunarvert úr mínum munni í kjölfar þess hvernig farið var yfir málið hér áðan.

Ég vil sem sagt segja að ég er hjartanlega sammála öllu því sem stendur í þessari þingsályktunartillögu. Ég styð hana náttúrlega. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur og félögum hennar í Pírötum fyrir að flytja hana og ekki síst hv. þingmanni fyrir ræðuna sem hún flutti áðan.