143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

8. mál
[12:09]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir nefnir það hér og ég hef orðið vör við það líka að ferlið allt hefur vakið gífurlega athygli og þykir mjög flott hvernig við reyndum að kalla eftir og hlusta á það sem fólki finnst. Þó að við hér séum vissulega fulltrúar fyrir fólkið og, eins og Birgitta Jónsdóttir segir réttilega, eigum að þjóna því virðist stundum eitthvað koma fyrir fólk þegar það kemur hingað inn og er hér lengi.

Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir nefndi það einhvern tímann í ræðustól að þetta væri meðvirkasti vinnustaður á landinu. Ætli þetta sé ekki meðvirkasti vinnustaður í heimi, ég veit það ekki. Ég get alveg fallist á orð þingmannsins, vissulega vekur þetta athygli erlendis og hjá fólki sem vinnur við rannsóknir við háskóla á stjórnarskrám, hvernig þær eru skrifaðar og hvernig þær verða til. Það vekur athygli.

Ég var með einum slíkum manni um daginn og hann sagði: Mér finnst það dásamlegt. Ég segi þetta á íslensku, hann sagði þetta á ensku. Íslendingar segja: Stjórnarskráin er á ís og þeir meina það bara svoleiðis. Það er ekkert kaldhæðnislegt við það. Hann meinti að íslenska stjórnarskráin væri á ís. Það hafði ekki hvarflað að mér fyrr að það væri eitthvað kúnstugt við að orða það þannig.

Ég lít sem sagt svo á að þetta sé á ís og það sem er á ís er hægt að þíða. Það þarf ekkert að skemmast og það á hér við.