143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

8. mál
[12:12]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Það er ánægjulegt að ég sé ekki eini króníski bjartsýnismaðurinn í þessum sal. Ég er aldrei tilbúin að gefa upp von fyrr en það er alveg útséð með eitthvað. Ég er sannfærð um það að við á þinginu getum unnið þessa vinnu heils hugar og passað okkur á að falla ekki í neinar gryfjur heldur einhent okkur í að finna þann samhljóm sem fannst í stjórnlagaráði. Þar var alls konar fólk alveg eins og er hér. Við erum bara alls konar fólk og erum það fyrst og fremst. Samkvæmt núgildandi stjórnarskrá skrifum við undir drengskaparheit um að virða hana.

Við megum heldur ekki vera hrædd við breytingar. Svolítill ótti við breytingar er kannski einkennandi fyrir þennan vinnustað. Hér er mikið um það sem kallað er formhelgi og venjuhelgi.

Mig langaði líka að taka undir þau orð hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur að ég fæ nánast daglega fyrirspurnir, hvatningu eða greinargerðir sem tengjast þessu ferli því að þetta þykir gríðarlega merkilegt. Ég er ekki að plata þegar ég segi að við erum mjög öfunduð bæði af almennum borgurum víðs vegar um heim og líka þeim sem gera það að sinni sérhæfingu og sérþekkingu að skoða og móta hugmyndir að nýjum stjórnarskrám.