143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

8. mál
[12:14]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Við þingmenn þurfum ekkert að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Það skiptir engu máli þó að 64,2% kjósenda hafi viljað það í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október í fyrra. Við þurfum bara ekkert að gera það, þannig er stjórnskipun okkar. Það skiptir ekki máli þó að 74% kjósenda vilji að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar í þjóðareign. Það skiptir heldur ekki máli þó að rúm 68% kjósenda vilji að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er. Og það skiptir ekki máli þó að 63,4% kjósenda vilji að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við þingmenn þurfum ekki að fara að vilja meiri hluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október á síðasta ári.

Þessi þingsályktunartillaga okkar Pírata er því formleg spurning til þingmanna um það hvort þeir vilji fara að skýrum vilja meiri hluta kjósenda eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012. Við þurfum ekki að gera það. Spurningin er hvort við viljum það.