143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

veiting rekstrarleyfa fyrir veitingastaði.

97. mál
[12:24]
Horfa

Flm. (Björk Vilhelmsdóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Mikið er ég glöð. Hér stend ég til að tala fyrir þingsályktunartillögu um að Alþingi feli hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra Ragnheiði Elínu Árnadóttur að taka til endurskoðunar lög og stjórnvaldsfyrirmæli sem snúa að veitingu rekstrarleyfa fyrir veitingastaði í þeim tilgangi að koma í veg fyrir rekstur veitingastaða sem gera út á nekt starfsfólks og aðgang að því í einkarými. Um er að ræða svokallaða kampavínsstaði. Tillagan gerir ráð fyrir að ráðherra greini Alþingi frá tillögum sínum eigi síðar en 1. apríl nk.

Þeir sem flytja þessa tillögu til þingsályktunar eru auk mín Árni Páll Árnason, Margrét Gauja Magnúsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Óttarr Proppé, Ásmundur Friðriksson, Björt Ólafsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Bjarkey Gunnarsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.

Ég viðurkenni að það var kannski fákunnátta mín, um það hvernig ætti að finna fleiri flutningsmenn, að ekki varð úr að fleiri kæmu að þessu. Þykir mér það miður því að ég veit að einhverjir þingmenn Framsóknarflokksins hefðu viljað vera með á þessari tillögu og jafnvel fleiri, en ég tek þá sök á mig.

Í þessari ræðu gæti ég farið í lagatæknilega umræðu um hverju þurfi að breyta, en í greinargerð með þingsályktunartillögunni er farið vel yfir þróun laga á þessu sviði og núverandi lagaumhverfi. Því ætla ég ekki að gera það en vísa til greinargerðarinnar.

Breytingarnar sem farið er fram á eru til þess ætlaðar að stjórnvöld, sveitarstjórnir og lögregla geti beitt sér þegar rökstuddur grunur leikur á ólöglegri starfsemi í tengslum við umrædda staði. Ef einhver efast um að fram fari ólögleg starfsemi á þessum stöðum get ég nefnt fréttaflutning sem vitnað er til í greinargerðinni sem fram hefur komið bæði í Fréttablaðinu, á Stöð 2 og í Grapevine, en það var líka af tilviljun sem Stöð 2 birti í gærkvöldi frétt sem tengist einmitt kampavínsstöðum þar sem sýndar voru upptökur af því þegar ein starfskona þessara staða bauð upp á vændi og nekt sína, sem hvort tveggja er algjörlega bannað samkvæmt íslenskum lögum. Ef fólk efast er því alltaf hægt að fara í fjölmiðla og sjá hið sanna.

Forsvarsmenn þessara kampavínsstaða og áður nektarstaða hafa í gegnum árin unnið deilur við stjórnvöld, við bæði lögreglu og sveitarstjórnir, með úrskurðum ráðuneyta vegna þess að lögin eru ekki nógu skýr. Þeir eru að bjóða upp á starfsemi sem er lögleg þó að annað sé í boði.

Lögreglan hefur til að mynda fengið á sig úrskurð í svokölluðu Strawberries-máli en lögreglan lokaði þeim stað árið 2008. Staðurinn kærði til ráðuneytisins og vann málið vegna þess að það væri ekki í verkahring lögreglunnar að skipta sér af himinháu verði á kampavíni, eins og segir í úrskurðinum, sem er ansi sérstakt. Staðurinn opnaði því aftur þó svo að lögreglan hafi í málflutningi sínum reynt að sanna að kampavínið væri gjaldmiðill fyrir vændið sem það svo sannarlega er.

Reykjavíkurborg hefur líka fengið á sig úrskurði um að borgin megi bara gefa umsagnir um opnunartíma staða og staðsetningu en megi ekki skipta sér af eðli starfsemi sem þar fer fram eða taka tillit til ótal kvartana og lögregluskýrslna. Við megum ekki segja í úrskurði okkar að ákveðin starfsemi sé andstæð málsmeðferðarreglum borgarinnar sem bannar nektardans á svona stöðum. Það er alveg ótrúlegt að núna, í þessum nýlegu úrskurðum innanríkisráðuneytisins, komi það svona skýrt fram að búið er að binda hendur sveitarstjórnar sem má bara segja til um opnunartíma og staðsetningu staða — sem er allt í lagi, það er allt í lagi að hafa svona stað í Austurstræti og líka á Lækjargötu og uppi í Ármúla, það er ekkert að staðsetningunni og ekkert að opnunartímanum. En við megum ekki segja, samkvæmt úrskurði, að þetta sé andstætt málsmeðferðarreglum og almannahagsmunum. Það er sem sagt hægt að breyta lögunum og tala skýrar en það þarf smáyfirlegu sérfræðinga og raunar hafa lögfræðingar Alþingis á nefndasviði ákveðnar hugmyndir um það hvernig hægt er að breyta lögunum.

Ég ætla ekki að fjalla meira um lagabókstafinn þó að hann sé mikilvægur, mig langar til að segja af hverju ég legg þessa tillögu fram og af hverju ég tel mjög mikilvægt að hún verði samþykkt. Stutta svarið er það að kampavínsstaðir koma ekki bara óorði á kampavín, þeir markaðssetja og klámgera kynlíf og konur og vinna þannig markvisst gegn réttindum kvenna, því að þetta snýst fyrst og fremst um rétt kvenna yfir lífi sínu. Kampavínsstaðir markaðssetja konur og líkama þeirra, sem er þá falur fyrir fé, til að uppfylla kynferðislegar langanir viðskiptavina, ekki þarfir.

Hvað segja þá eigendur staðanna? Nei, þeir eru ekki að selja konur, það er bara kampavínið sem er til sölu. Ef þú drekkur flöskuna á 15 mínútum kostar hún 20 þús. kr., en ef þú drekkur sömu flösku á klukkutíma kostar hún 60 þús. kr. þannig að það fer eftir því hversu hratt þú drekkur hvað flaskan kostar. Og það segir manni hvað þessir staðir eru að leika á okkur, löggjafarvaldið, mér finnst þeir bara vera að gera lítið úr löggjafarvaldinu og fara hringinn í kringum lögin og við getum ekki beitt okkur. Lögreglan getur það ekki og sveitarfélögin geta það ekki. Markaðsöflin eru fljótari en við en ekkert endilega klárari, þeir eru alla vega sneggri, og við eigum að læra af þeim og sýna sambærilegan viðbragðsflýti og breyta orðalagi þegar það er hægt, eins og í þessu tilfelli.

Það er ólöglegt að selja fólk og kaupa fólk og það er algjörlega skýrt í lögum. Í fréttum í dag er sagt frá því að tíu karlar séu ákærðir af 86 kaupendum vændis sem teknir voru nýlega. Ætli þetta séu allt svona perrar sem bara verði að fá það og því mjög mikilvægt að hafa svona starfsemi? Svo er ekki. Þetta eru bara karlar eins og þeir sem sitja á Alþingi. Þetta eru bara venjulegir heimilisfeður, oftast giftir menn. Markaðssetningin gengur út á þá, eins og ótal rannsóknir sýna á kaupendum kynlífsþjónustu og vændis — það eru giftir menn fyrst og fremst sem kaupa þessa þjónustu. Þetta er ekki þjónusta við perra til þess að losa um þannig að þeir fari ekki eitthvað annað.

Hvaða konur er verið að selja? Eru þetta íslenskar konur? Já, þetta geta verið dætur okkar og systur. En nei, þær konur sem verið er að selja á þeim stöðum sem um ræðir eru aðallega konur frá Rúmeníu, Hvíta-Rússlandi og öðrum fátækum löndum. Þær eru ginntar með frásögnum af góðu lífi á Vesturlöndum. Þær eru gerðar að kynlífsþrælum þar til þær hlýða í einu og öllu. Það er unnið svo markvisst með þessum konum að þær geta meira að segja farið og leikið hamingjusömu hóruna nokkuð sannfærandi.

Við skulum muna að Ísland var einu sinni svona fátækt land, bara fyrir nokkrum áratugum. Hvað hefði okkur fundist um það ef ömmur okkar hefðu verið seldar til nýlenduþjóðanna sem þá áttu pening? Mér finnst það ekki sjálfri góð tilfinning ef Stebba amma eða Sigríður amma hefðu verið teknar með þessum hætti og seldar til þeirra sem áttu pening þá. En þegar þær voru ungar konur var Ísland fátækt eins og Rúmenía er í dag. Það er nefnilega mjög hollt fyrir okkur að setja okkur sjálf í þau spor sem þolendur mansals eru að upplifa vegna þess að þetta fólk er alveg sama fólkið og við. Þó að það búi við félagslega erfiðleika og búi í fátækum ríkjum þá er þetta fólk jafn mikið fólk og við sem hér erum í landi mikillar velmegunar. Vilhjálmur gæti bara verið Peter í öðru landi og Steinunn Þóra gæti bara verið Claudia einhvers staðar í Suður-Evrópu o.s.frv. Við verðum að passa okkur á því að horfa ekki á þetta fólk sem annars konar fólk en okkur.

Ég sagði hér áðan að mig langaði líka til að tala um kynlíf. Það er vegna þess að kynlíf er svo gott, sérstaklega með þeim sem við elskum og vilja vera með okkur, það ættum við öll að geta verið sammála um. En kampavínsstaðirnir sem markaðssetja konur markaðssetja um leið kynlíf. Þeir eru hluti af klámvæðingunni sem tekur gleðina frá þeim sem ekki uppfylla staðalmyndina sem er til sölu, því að það er aldrei verið að selja til dæmis konur eins og mig. Kynlíf er ekki síður fyrir okkur sem erum 100 kíló og komin á virðulegan aldur og við eigum að berjast fyrir rétti okkar sem erum ekki samkvæmt staðalmyndinni og gegn klámvæðingunni sem gerir svo lítið úr þessum mikilvæga þætti í lífi okkar. Mér finnst að það eigi að vera verkefni okkar.

Ég vona að við getum breytt lögum til þess að loka á þessa ólöglegu starfsemi. Við þurfum að vera viðbraðgsfljótari og breyta orðalagi í lögunum. Þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir að ráðherra skili tillögum 1. apríl en ég vona að tillögurnar verði tilbúnar fyrr og við sýnum þeim sem hafa alltaf verið að leika á okkur að við getum líka verið viðbragðsfljót og snögg, og það eru hugmyndir að lausnum. Löggjafinn og stjórnvöld hafa nokkuð rúmt svigrúm til að stöðva starfsemi sem þessa á grundvelli almannahagsmuna svo fremi lög og stjórnvaldsfyrirmæli eru skýr og nægilega vel úr garði gerð og gætt sé eðlilegs meðalhófs. Við getum sem sagt gert þetta en þurfum að breyta lögunum. Við eigum að koma í veg yfir að ólögleg starfsemi þrífist á veitingastöðum sem bjóða upp á ólöglega starfsemi undir yfirskyni kampavíns eða einhvers annars sem markaðssérfræðingarnir finna upp á.

Það á ekki að vera hægt að kaupa aðgang að fólki í einkarými í kynferðislegum tilgangi sem er fyrst og fremst markmið þessara staða. Mér finnst að konur, kampavín og kynlíf eigi miklu betra skilið en það sem í boði er á þessum svokölluðu kampavínsstöðum borgarinnar. Þess vegna vona ég innilega að þingheimur samþykki þessa tillögu. Þó að ég verði fjarstödd eru á tillögunni margir góðir samflutningsmenn sem ég vona að verði til þess að tillagan verði samþykkt, að við breytum lögunum og sýnum að við erum líka svolítið klár og snögg þegar á þarf að halda.