143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

veiting rekstrarleyfa fyrir veitingastaði.

97. mál
[12:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Á síðasta áratug síðustu aldar heyrðist það sjónarmið alloft að rekstur staða sem gera út á nekt og nektardans væri hið eðlilegasta fyrirbæri og sumum held ég að hafi jafnvel fundist þeir dálítið spennandi. Sem betur fer hefur viðhorfið breyst ansi mikið á liðnum árum og flestir hafa áttað sig á því að nektardans, vændi, klám og mansal séu af sama meiði og að ekki sé eðlilegt að konur séu notaðar sem markaðsvara sem kaupa megi og selja til að uppfylla kynferðislegar eða annars konar langanir annarra.

Þrátt fyrir viðhorfsbreytingu þorra almennings hefur gengið illa að koma böndum á og loka veitingastöðum sem gera út á nekt starfsfólks. Ég fagna því fram kominni þingsályktunartillögu hv. þm. Bjarkar Vilhelmsdóttur sem ég er meðflutningsmaður á og vona svo sannarlega að hún nái fram að ganga og að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra taki til endurskoðunar lög og reglur sem snúa að veitingu rekstrarleyfa til veitingastaða sem gera út á nekt starfsfólks svo koma megi hreinlega í veg fyrir rekstur slíkra staða og þannig verði komið í veg fyrir sölu á konum í lokuðum einkarýmum.