143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

sjúklingagjöld og forgangsröðun við tekjuöflun ríkissjóðs.

[14:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir að hafa orðið svo fljótt við beiðni minni um sérstaka umræðu um sjúklingaskatta, enda er umfjöllunarefnið mikilvægt, held ég, fyrir okkur öll hér í þinginu að ræða af alvöru. Ríkisstjórnin telur nú svigrúm til þess að lækka veiðigjöld, framlengja ekki auðlegðarskatta og lækka tekjuskattsprósentu í miðþrepi, en á sama tíma innleiðir hún skatta á inniliggjandi sjúklinga, það fólk í landinu sem veikast er. Þetta er vond forgangsröðun og það er eðlilegt að henni sé mótmælt því að ef við höfum svigrúm til að lækka gjöld og skatta eigum við auðvitað fyrst og fremst að gera það hjá þeim sem höllustum fæti standa en ekki hjá þeim sem efnaðastir eru og best hafa það meðan við á sama tíma hækkum gjöld og skatta á þá sem höllum fæti standa.

Það er því eðlilegt að ríkisstjórnin sé spurð um pólitíska forgangsröðun í þessu efni, hvort hún leggi áherslu á að auka tekjur af sjúklingasköttum á kjörtímabilinu en lækka á móti skatta á eignafólk, á fólk með fjármagnstekjur og fólk í hærri skattþrepunum hjá okkur eða hver sé stefna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum.

Ég held að það sé líka tilefni fyrir okkur í öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi að íhuga vel þróunina á þessu sviði og hvert við viljum að stefnt sé. Á síðustu áratugum er það þannig, og það er undir stjórn allra flokka í þinginu, breytilegt frá tíma til tíma en samfelld þróun frá 1993, að hlutdeild sjúklinga í heilbrigðiskostnaði hefur vaxið verulega. Á áratugnum frá 1984 til 1993 var hún 13–15% af kostnaðinum, einn sjötti eða einn sjöundi hluti. Það er svipað og við sjáum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð enn þann dag í dag, í þeim löndum sem við helst keppum við um lífsskilyrði, um vinnuaflið, um nýjar kynslóðir.

Það sem hefur hins vegar gerst hjá okkur er að meðan þetta hlutfall er enn hið sama í þessum ríkjum Norðurlandanna og það var hjá okkur fyrir 20 árum hefur kostnaðarhlutfall sjúklinga hér á landi hækkað um þriðjung til helming sem hlutfall af kostnaðinum á þessum tíma. Það er komið í hartnær 20% af heilbrigðiskostnaðinum í landinu. Sjúklingar eru farnir að greiða 30 milljarða á ári hverju af heilbrigðiskostnaðinum. Á tveimur til þremur áratugum er tvöföldun á raunkostnaði hvers heimilis af heilbrigðisþjónustunni, úr um 150 þús. kr. á hvert heimili í 300 þús. kr. á ári.

Það er alveg ljóst að þó að meðaltalið sé 300 þúsund þýðir það að þær byrðar leggjast auðvitað þyngst á þá sem veikastir eru og geta þess vegna verið miklu hærri en þessar fjárhæðir og hlaupið á tugum þúsunda króna í hverjum mánuði.

Við höfum undanfarin ár barist við mikinn halla á ríkissjóði, afleiðingar af skelfilegu efnahagshruni, en nú þegar við erum að rétta úr kútnum og svigrúm virðist vera að skapast í ríkisfjármálum og áframhaldandi hagvöxtur getur skilað okkur enn fleiri tækifærum til að bæta lífsskilyrði í landinu og létta kjör almennings er eðlilegt að stjórnmálaflokkarnir spyrji sig hvaða áherslur við viljum leggja í því.

Erum við sátt við þessa þróun? Ég endurtek að hún er yfir lengri tíma, ekki á ábyrgð einhvers eins flokks sérstaklega í þinginu þó að okkur greini núna á um hina pólitísku forgangsröðun hjá ríkisstjórninni þegar hún lækkar skatta efnafólks og hátekjufólks og útgerðarmanna meðan hún innleiðir ný sjúklingagjöld á inniliggjandi sjúklinga. Viljum við, ef við höfum færi á því að lækka skatta og gjöld, leggja áherslu á að lækka þessi gjöld fremur en til dæmis tekjuskatt sem við höfum oft séð hærri og er hærri í ýmsum löndum í kringum okkur eða virðisaukaskatt sem við höfum sömuleiðis séð hærri og er hærri í sumum löndum í kringum okkur? Teljum við það mikilvægt? Er hæstv. fjármálaráðherra, fyrir utan hin nýju legugjöld á veikasta fólkið sem er að leggjast inn á spítala og við höfum verið sammála um að ætti ekki að borga sjúklingaskatta, (Forseti hringir.) að hækka aðra sjúklingaskatta (Forseti hringir.) í frumvarpinu eða kynna nýja skatta til sögunnar?