143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

sjúklingagjöld og forgangsröðun við tekjuöflun ríkissjóðs.

[14:11]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Útgjöld til heilbrigðismála hafa verið mikið til umræðu, m.a. vegna aðbúnaðar og starfsumhverfis, ekki síst í ljósi þess að fjöldi lækna og hjúkrunarfræðinga hefur farið til útlanda í tryggara starfsöryggi og betri kjör. Við vitum líka að íslensk heilbrigðisþjónusta hefur dregist aftur úr, samanborið við þau lönd sem við gjarnan berum okkur saman við.

Ég tel að nokkuð almenn sátt ríki í þjóðfélaginu um að allir landsmenn, óháð búsetu eða stöðu, eigi rétt á heilbrigðisþjónustu sem að stærstum hluta er greidd úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Hér ræðum við um fjármuni sem skipta öllu máli við forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni, um það er ekki deilt. Í því sambandi er mikilvægt að halda því til haga að vandinn er víðar en á Landspítalanum og almennt er brýn þörf fyrir meira fé inn í heilbrigðiskerfið.

Í fjárlagafrumvarpinu og í máli hæstv. heilbrigðisráðherra koma fram tillögur til sparnaðar sem miða að stórum sameiningum á landsbyggðinni og aukinni gjaldtöku sjúklinga; að láta þá sem veikir eru borga meira í stað þess að finna leiðir til að jafna útgjöldin niður á við og um leið að létta svolítið undir með stórútgerðinni og heilbrigðum ferðamönnum.

Við getum borgað í gegnum skattkerfið, það er mun meira jöfnunartæki en að gera þetta. Svo gætum við dregið til baka til dæmis um 0,4% tekjuskattinn sem ætlað er að innheimta 5 milljarða, þar erum við komin með 2,5 milljarða sem gætu gagnast okkur eitthvað þarna.

Þegar ætlunin er að ná fram sparnaði með slíkum breytingum hlýtur að vera mikilvægt að skilgreina fyrir fram til hvers sá sparnaður á að leiða og hvernig árangur af þeim breytingum skuli metinn. Mikilvægt er líka að það sé klárt að lækkun kostnaðar á einu sviði leiði ekki til aukins kostnaðar annars staðar í heilbrigðis- og félagskerfinu.

Það er áhugavert að heyra í stjórnarliðum sem talað hafa hér undanfarna daga og lýst því yfir að fjárlagafrumvarpið sé alveg ómögulegt þegar kemur að framlögum til heilbrigðismála, en á sama tíma veitir það von um liðsstyrk af þeirra hálfu til að úr verði bætt. Við vinstri græn munum gera okkar til að standa vörð um heilbrigðisþjónustuna og höfum ýmsar tillögur í því sambandi, m.a. hvernig afla má tekna og hverju hægt er að breyta í fjárlagafrumvarpinu til að standa við það upplegg að skila þeim hallalausum. Við eigum að fjárfesta í heilsu og góðri heilbrigðisþjónustu því að það skilar okkur bæði samfélagslegum og fjárhagslegum ávinningi til framtíðar.