143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

sjúklingagjöld og forgangsröðun við tekjuöflun ríkissjóðs.

[14:14]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Hér eru spiluð gamalkunn stef úr keppninni um það hver er besti vinur sjúklinga, hvaða stjórnmálaflokkur það er. Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af þeirri keppni, ég held að allir vilji reyna að standa sig vel í þessum málaflokki og að stóra spurningin snúist um það hvernig við nýtum þá fjármuni sem í hann fara sem best þannig að sóun sé sem minnst og þjónustan eins góð og nokkur kostur er á.

Mér finnst hæstv. fjármálaráðherra færa fyrir því ákveðin rök, ágætisrök, að það þurfi að vera sanngirni í þessu. Það er auðvitað verið að innheimta margvísleg sjúklingagjöld og hér er rætt um eitt form þeirra. Hvað um það verður kemur bara í ljós í meðförum þingsins. Það virðast vera skiptar skoðanir um það, meðal annars stjórnarflokksins að minnsta kosti hvort þetta eigi að ganga eftir eða ekki.

Aðalatriðið og það sem við þurfum að ræða er heildarskipulag heilbrigðisþjónustunnar, efling heilsugæslunnar, að reyna eftir fremsta megni að beina sjúklingum í eins ódýr úrræði og mögulegt er þannig að við nýtum peningana vel. Það sem við ættum líka að vera að ræða hér er hvernig við ætlum að mæta þeirri miklu fjárþörf sem er í heilbrigðiskerfinu, á Landspítalanum, atgervisflóttanum og þeim áhyggjum sem framtíðarstarfsfólk er að senda til okkar þingmannanna, hvernig við ætlum að mæta þeim áhyggjum sem landsmenn hafa af því hvert stefnir í þessum efnum.

Það sem við ættum að beina til hæstv. fjármálaráðherra er að hér er ríkisstjórnin að fara í skattalækkanir sem við höfum ekki efni á miðað við þá fjárþörf sem uppi er og sem þjóðin hefur í raun og veru ekki farið fram á og enginn er að biðja um. Það er mergurinn málsins, (Forseti hringir.) virðulegur forseti.