143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

sjúklingagjöld og forgangsröðun við tekjuöflun ríkissjóðs.

[14:18]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson talar um sjúkrahótelsgjald. Menn fara ekki á hótel þegar þarf að leggja þá inn, það er engin hótelvist. Þetta er akkúrat sá tími þegar menn eru hvað veikastir og þurfa ekki á því að halda að auka við áhyggjur sínar. 1.200 kr. eru ekki mikill peningur fyrir hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson. (Fjmrh.: En fyrir þingmanninn?) Og ekki heldur fyrir þingmanninn. Það eru ekkert háar upphæðir fyrir hann en það er fólk í þessu samfélagi sem neitar sér um lágmarkslæknisþjónustu vegna þess að hún er of dýr. Hvernig er þá fyrir fólk að leggjast inn þegar það er hvað veikast? Það þarf að leggjast inn á spítala og sér mæli tikka við hliðina á rúminu sínu. Það hefur áhrif. 10 þús. kr. skipta máli fyrir fólk. 1.200 kr. skipta máli fyrir fólk, ekki hæstv. fjármálaráðherra en fyrir marga Íslendinga skipta þær máli.

Landsmenn hafa þegar greitt fyrir lágmarksheilbrigðisþjónustu með háum sköttum. Það eru háir skattar í þessu landi. Þar erum við hæstv. fjármálaráðherra alveg örugglega sammála. Þetta er spurning um forgangsröðun, hvert á að forgangsraða þessum háu skatttekjum. Landsmenn almennt vilja forgangsraða í heilbrigðiskerfinu, líka sjálfstæðismenn.

Við höfum ekki efni á bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu í heimi en við höfum efni á lágmarksþjónustu og að fólk sé ekki rukkað þegar það er ekki að fara í hótelvist heldur að leggjast inn á spítala af því að það er það veikt og þá vill fólk að það sé forgangsraðað, að ekki þurfi að auka þar áhyggjur fólks. Það er lágmarkið. Þetta er bara spurning um forgangsröðun.