143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

sjúklingagjöld og forgangsröðun við tekjuöflun ríkissjóðs.

[14:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er ágæt og að mörgu leyti upplýsandi. Ég verð að viðurkenna að upplegg hv. þm. Helga Hjörvars veldur mér miklum vonbrigðum. Hv. þingmaður veit miklu betur, hann veit að það skiptir engu máli hvað kostnaðurinn heitir sem veikt fólk greiðir. Það gildir einu. Það er bara ekki rétt að leggja mál upp eins og hér er gert. Ef við skoðum þetta hafa heildarútgjöld sjúklinga árið 2012 ekki verið hærri en síðan 1998. Lægst voru þau á þessu tímabili í tíð okkar sjálfstæðismanna, 2007–2008. Þá voru lægstu gjöldin (HHj: Voruð þið einir?) fyrir sjúklinga.

Virðulegi forseti. Þá voru lægstu gjöldin. Við fórum hins vegar af stað með verkefni til að koma í veg fyrir það sem hv. þm. Björk Vilhelmsdóttir vísaði hér til þegar hún tilgreindi allra handa kostnað. Við settum á endurgreiðslukerfi til að koma í veg fyrir að þeir sem veikastir verða greiði mjög mikið. Við vorum að reyna að vernda þá sem veikastir verða sem vanalega hafa minna milli handanna. Það verk var stoppað af síðustu ríkisstjórn. Því var hent niður í geymslu af ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Sem betur fer er núverandi ríkisstjórn búin að taka þetta upp aftur.

Hér var rætt um sjúkrahótel. Núna er greitt fyrir að fara á sjúkrahótel sem menn gera eftir að þeir fara í aðgerð. Núna greiðir maður 5.600 kr. ef maður verður fyrir slysi og fer á slysadeild. Ef maður fer á göngudeild á Landspítalanum greiðir maður 3–31 þús. kr. Í tíð síðustu ríkisstjórnar hækkuðu komugjöldin á Landspítalanum úr 498 milljónum í 615 milljónir. Við skulum ræða þessa hluti eins og þeir eru og fara málefnalega yfir þá. Við virðumst vera sammála um að við viljum vernda þá sem eru veikir, en þá skulum við ekki vera með þessar upphrópanir (Forseti hringir.) og leggja hlutina upp einhvern veginn öðruvísi en þeir eru. Það hjálpar ekki, (Forseti hringir.) allra síst sjúklingum.