143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

sjúklingagjöld og forgangsröðun við tekjuöflun ríkissjóðs.

[14:25]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Helga Hjörvar, fyrir þessa mikilvægu umræðu. Það er og hefur verið grundvallaratriði í stefnu okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að velferðarkerfið skuli fjármagnað með sameiginlegum sjóðum, þ.e. í gegnum skattkerfið. Þar hefur leiðarstefið verið að þau sem meira bera úr býtum skuli borga hlutfallslega meira en þau sem búa við lakari kjör.

Það var í anda þeirrar stefnu sem hreyfing okkar gagnrýndi harðlega lækkun auðlindagjalds í sjávarútvegi sem var eitt fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar í sumar. Í umræðum um heilbrigðismál hafa stjórnarliðar, þar á meðal hæstv. fjármálaráðherra, notað þau rök að jafna verði aðstöðumun þeirra sem nota heilbrigðiskerfið og að ósanngjarnt sé að rukka þá sem nota dagdeildarþjónustu en ekki þá sem leggjast inn. Þennan aðstöðumun tel ég sjálfsagt að jafna en það skulum við gera með því að draga úr kostnaðarþátttöku alls staðar í kerfinu, ekki auka hana. Aðstöðumunur fólks er nefnilega gríðarlegur vegna ólíks fjárhags. Hvers lags sjúklingagjöld auka enn frekar á þennan aðstöðumun. Nú þegar er svo komið að fólk sem býr við kröpp kjör neitar sér um nauðsynlega þjónustu. Sanngjörn leið, og um leið sú leið sem líklegust er til að stuðla að heilbrigði þjóðarinnar allrar, ekki bara þeirra efnameiri, er í gegnum skattkerfið.

Með áformum sínum um sjúklingagjöld er ríkisstjórnin komin í hættulega vegferð. Sú vegferð nýtur ekki stuðnings þjóðarinnar, leyfi ég mér að fullyrða, sem margoft hefur staðfest þann vilja sinn að heilbrigðiskerfið eigi að vera gott og fjármagnað í gegnum sameiginlega (Forseti hringir.) sjóði.