143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

sjúklingagjöld og forgangsröðun við tekjuöflun ríkissjóðs.

[14:27]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Frú forseti. Við í Bjartri framtíð teljum, eins og flestir aðrir, að það sé mjög brýnt að jafna greiðsluþátttöku sjúklinga. Hún er, eins og komið hefur fram í umræðunum hérna í dag, mjög mismunandi eftir þjónustu og jafnvel eftir sjúkdómum.

Ég minni á að að störfum er nefnd sem hv. þm. Pétur Blöndal veitir forustu og hún snýr að því að finna einhverja lausn til að búa til eitt greiðsluþátttökukerfi. Það hlýtur að vera mikilvægt að þessi nefnd ljúki störfum og móti einhverjar útfærðar tillögur í tengslum við greiðsluþátttöku áður en við grípum til svona róttækra breytinga.

Þetta eru um 200 milljónir ef ég man rétt. Þá veltir maður fyrir sér hvort búið sé að taka inn í þá tölu ellilífeyrisþega, öryrkja, langveika og þá sem munu ekki greiða þetta legugjald vegna þess að þeir eru hugsanlega komnir upp í eitthvert þak. Það er nokkuð sem fjárlaganefnd ætti kannski að óska eftir, þ.e. upplýsingum um hversu áreiðanleg þessi upphæð er, þessar 200 milljónir.

Ég ítreka að nefndin ætti að ljúka störfum, þar er allt undir til að jafna þessa greiðsluþátttöku, áður en menn fara út í svona. Þetta er svolítið eins og plástrar, bútasaumur.