143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[14:54]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða spurningu. Ég vonast til þess að svona verði spurningarnar frá hv. þingmönnum þegar við ræðum mál á þessu kjörtímabili og um alla framtíð.

Svar við spurningunni er nei og nei. Eðli málsins samkvæmt er ekki gert ráð fyrir þessu á fjárlögum vegna þess að það er ekki búið að samþykkja málið.

Varðandi áætlunina hef ég metið það þannig að það væri viðkomandi nefndar, hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að gera kostnaðaráætlun þannig að við vissum hvað við værum að fara út í og hvað við værum að samþykkja og gerðum ekki sömu mistök og við gerðum með í það minnsta rannsóknarnefndirnar vegna Íbúðalánasjóðs og sparisjóðanna. Þar var mjög illa afmarkað hvað ætti að rannsaka.

Svo held ég að eftir þær rannsóknarnefndir sem við erum búin að fara í núna ættum við að fara yfir það, sérstaklega í hv. fjárlaganefnd, af hverju kostnaðurinn er jafn mikill og raun ber vitni, hvað er nákvæmlega á ferðinni. Ég hef engan áhuga á því (Forseti hringir.) eins og ég nefndi áðan að gera sömu mistökin og gerð voru þar.