143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[14:55]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Oft er nú hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson málsnjall og góður í að flytja rök fyrir sínu máli. Ég verð að segja að ég beið með eftirvæntingu eftir framsögu hans en ég hef aldrei heyrt aumari framsögu fyrir nokkru máli. Það kom aldrei fram í máli hans af hverju ætti að rannsaka málið. Hann gaf eina ástæðu. Hún var þessi: Fyrrverandi fjármálaráðherra upplýsti það hér aðspurður í þinginu á sínum tíma að honum væri ekki kunnugt um að verið væri að undirrita samninga. Hann svaraði sannleikanum samkvæmt. Hv. þingmaður hefur kannski enga reynslu eða þekkingu á alþjóðlegum samningum, en tveir dagar, tveir sólarhringar, er töluvert langur tími þegar um slíka samninga er að ræða sem búið er að standa í lengi. Það er því fullkomlega óeðlilegt að ætla að þáverandi fjármálaráðherra hafi verið að tala gegn betri vitund.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann ætli sér virkilega ekki í framsögu að greina frá því hvað það er sem hann telur að þurfi að rannsaka.