143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[15:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir ágæta ræðu. Mér fannst hún ágæt þó að aðrir hafi aðra skoðun á því. Mér finnst að við þurfum að læra af þeim rannsóknum sem við höfum farið í, t.d. á Íbúðalánasjóði. Það vantar inn í þessar rannsóknir andmælarétt þeirra sem sæta þar ásökunum. Telur hv. þingmaður ekki eðlilegt að sú nefnd sem fær þetta til umsagnar taki það inn í frumvarpið?

Þá er spurning um kostnaðinn og yfirstjórnina, hvort ekki þurfi að vera einhver eftirlitsaðili sem gæti þess að kostnaðurinn verði ekki of hár.

Svo vil ég koma því inn í þessa umræðu, sem ég sé ekki í þingsályktunartillögunni, að hérna voru samþykkt í tvígang lög um Icesave, en þeirra er ekki getið í fjárlögum. Meira að segja einu sinni voru þau samþykkt upp á fleiri hundruð milljarða tveim dögum eftir að fjárlög höfðu verið samþykkt og það var ekki getið um þau í fjárlögum. Fyrir utan það á náttúrlega undirskrift fjármálaráðherra að skuldbinda ríkissjóð.