143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[15:03]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki komið mikið inn á þetta í stuttu andsvari en ég er sammála því sem hv. þingmaður segir um fjárlögin og því sem hann nefndi í tengslum við þetta mál. Ég vil aðeins taka punktinn varðandi það þegar nefndarfundur breytist í réttarhöld, þá er ég að vísa í það sem gerðist í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Í rauninni má segja að það hafi gerst almennt í þjóðfélaginu. Við erum að stíga fyrstu skrefin varðandi það að hv. Alþingi sinni eftirlitshlutverkinu með þessum hætti. Mér finnst augljóst að við gerum ýmis mistök. Við verðum að geta rætt þessi mál efnislega, málefnalega og út frá staðreyndum án þess að umfjöllunin snúist alltaf um persónur, hverjum sé um að kenna o.s.frv.

Við viljum aldrei sjá þetta Icesave-mál aftur. Við vitum að úr því að það gat gerst á sínum tíma getur það gerst aftur. Við þurfum að greina hvað fór þarna úrskeiðis og hvað við getum gert til þess að það gerist aldrei aftur. Þetta má aldrei aftur koma fyrir, virðulegi forseti.