143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[15:14]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er algjörlega frjáls til þess að tala hér vegna þess að ég var sjálfum mér trúr. Það var erfitt. Ég hef aldrei lent í erfiðara máli en síðasta kafla landsdómsmálsins þegar við vorum tvö eftir í mínum þingflokki sem vorum samkvæm sjálfum okkur og sem bentum á að komið hefðu fram ný rök í málinu sem drógu úr líkunum á því að sá sem var dreginn fyrir landsdóminn yrði sakfelldur. Við færðum rök okkar fyrir því.

Ég get því talað um þetta fullkomlega frjáls og ætla að gera það. Þess vegna rennur mér til rifja að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru komnir hér í hefndarleiðangur. Það er ekkert annað sem fyrir þeim vakir, alveg eins og þegar flutningsmaður málsins fyrsta sinni, Sigurður Kári Kristjánsson, lagði það fram í hita augnabliksins, þegar þessi mál voru að ganga yfir. Ég hafði ákveðinn skilning á því þá og hann var ekkert að dylja það.

Þegar menn koma núna, mörgum árum síðar, og leggja fram þetta mál og þegar hv. þingmaður og 1. framsögumaður segir það beinlínis, nefnir einn mann um leið og hann heykist síðan í andsvörum á því að fara dýpra í röksemdafærslu og biður þá allt í einu, kominn á hnén, um málefnalega rökræðu, er eðlilegt að ég spyrji bæði hv. þm. Elínu Hirst og framsögumanninn hér á eftir: Hvernig stendur á því að verstu samningarnir sem gerðir voru í þessu, sem gerðir voru af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, án þess að vera bornir undir ríkisstjórn eða aðra ráðherra, þar á meðal mig, eru sérstaklega undanskildir málinu í greinargerð?

Það er spurning mín til Elínar Hirst. Er það að vera sjálfum sér samkvæmur?