143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[15:23]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að hlusta á æstan bjargvætt íslenskrar þjóðar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem ég held að sé búinn að bjarga öllu því sem bjargað verður á síðustu árum og hafi hann mikla þökk fyrir. Ég veit ekki hvar íslensk þjóð væri ef við hefðum hann ekki.

Ég held að öll þau lýsingarorð sem hann notaði um mig og aðra eigi best við hann sjálfan, því miður.

Ég ætla að leiðrétta eitthvað af því sem rangt er farið með. Ég held að upplifun hans á eigin ágæti sé bara eitthvað sem hann verður að eiga við sjálfan sig. Ég ætla ekkert að fara í það sérstaklega en vil þó vekja athygli hans á því að þegar hann talar um hótanir Sjálfstæðisflokks um að hefnt yrði fyrir landsdóm var það þannig að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefði getað greitt atkvæði með ákæru í landsdómi. Við gerðum það ekki, virðulegi forseti, það voru aðrir sem spiluðu leiki þar. Það voru ekki hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, ekki einn þeirra.

Ég sagði sérstaklega í framsögu minni að ég vildi ekki sjá landsdóm. (Gripið fram í.) Ég sagði það sérstaklega þegar ég var að ræða um að við þyrftum að læra af því sem á undan væri gengið. Ég get tekið umræðuna við hv. þingmann hvar og hvenær sem er. Þegar ég segi að við skulum tala um hlutina út frá staðreyndum og málefnalega er það ekki vegna þess að ég sé að biðjast undan rökræðu. Það veit hv. þingmaður.

Ef hv. þingmaður er mjög æstur í dag er það bara svo. En ef við ætlum ekki að rannsaka þetta mál, hvaða mál ætlum við þá að rannsaka, virðulegi forseti?