143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[15:27]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvar maður á að byrja þegar maður kemur inn í þessa orðræðu. Ég veit ekki í hvaða upplifun hv. þingmaður hefur verið á undanförnum árum. Við vorum augljóslega ekki saman í ríkisstjórn, svo mikið er víst.

Hann kemur hvað eftir annað og talar um landsdóm. Hér eru tveir hv. þingmenn búnir að tala, ég og hv. þm. Elín Hirst, og við fórum alveg skýrt í gegnum það að við höfum engan áhuga á landsdómi. Við erum ekki fylgjandi landsdómi, vorum það ekki, erum það ekki, verðum það ekki. En það breytir engu, hv. þingmaður sem hlustar vonandi á þetta, ég vona að hann sé ekki bara hérna að horfa á okkur, talar eins og við gerum ekkert annað en að tala fyrir því að hér verði landsdómur. Hann segir að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi hótað landsdómi.

Virðulegi forseti. Það voru allir meðvitaðir um það og við sáum alveg í hildarleik þeirrar atkvæðagreiðslu að við hefðum þá getað hefnt okkar án nokkurs vafa, en við gerðum það ekki. Við erum á móti landsdómi.

Ég veit ekki af hverju hv. þingmaður lætur eins og hann lætur. Lokaorð hans hér áðan um að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefði bara — ja, ég veit ekki hverju hann bjargaði ekki. Það eru þá að minnsta kosti komnir tveir bjargvættir, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Það er bara vel, sjálfstraust skiptir máli og gott ef hv. þm. Össur Skarphéðinsson er með sjálfstraust fyrir sína hönd og félaga sinna, það er bara vel. Þetta mál snýst hins vegar ekkert um það.

Ef við munum hins vegar alltaf rannsaka þetta þannig að það snúist um hefndarleiðangur, ef hv. þingmaður upplifir það þannig og við ætlum þá að hlusta á hv. þingmann, skulum við hætta. Þá erum við ekki að fara í neinar rannsóknir. Það liggur þá alveg fyrir, virðulegi forseti.