143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[15:36]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf fagnaðarefni þegar hingað kemur inn maður með fullu viti. Þeir eru auðvitað fleiri hér í salnum, en þennan mann nefni ég sérstaklega, vegna þess að hann kemur til varnar þeirri ömurlegu framsöguræðu sem flutt var fyrir þessu máli. Hann skynjar það í hvaða ógöngur Sjálfstæðisflokkurinn er kominn og er að reyna að verja hann. Það er virðingarvert. Hann er að reyna draga hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson upp úr því díki sem hann felldi sjálfan sig ofan í.

Þegar hv. þingmaður les þessa tillögu og vitnar í að það eigi að taka sérstaklega til skoðunar samskipti Breta og Hollendinga við íslensku ríkisstjórnina út af málinu, þá er það eigi að síður svo að þegar maður les tillöguna í gegn er algjörlega ljóst hvaða þætti á að taka fyrir. Það er líka jafnljóst af því sem ekki er fjallað um í greinargerð hverju á bara að sópa undir teppið.

Það sem ég er að segja í þessu er tvennt. Ég er ekki á móti rannsókn, en þá skulu menn rannsaka allt. Þá þýðir ekkert fyrir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins að berja sér á brjóst og nefna sérstaklega tiltekna leiðtoga úr fyrri ríkisstjórn og að skoða þurfi hvort þeir, svo að það sé sagt hér hreint út, hafi logið að þinginu, því að það var dylgjan í máli hv. þingmanns, þegar ekkert bendir til að svo hafi verið. Aldrei. Hv. þingmaður hefur þó tönnlast á þessu árum saman.

Ég segi enn og aftur að þessi tillöguflutningur með þeim umbúnaði sem er að finna í greinargerðinni er framsögumönnunum öllum, hverjum einasta, og gervöllum Sjálfstæðisflokknum til skammar. Það er skammarlegt af Sjálfstæðisflokknum að leggja í þennan leiðangur sem er einungis í hefndarskyni. En þeir standa þar með við yfirlýsingar sínar, sennilega þriggja eða fjögurra ára gamlar. Að því leytinu til en bara að því leytinu eru þeir samkvæmir sjálfum sér.