143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[15:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu. Ég geri algjörlega skýran greinarmun á tillögunni og andlagi hennar annars vegar og hins vegar því sem hv. þingmaður segir. Ég hef ekkert á móti því að menn grafist fyrir um það af hverju tilteknar ákvarðanir voru teknar og með hvaða rökum. Hv. þingmanni til hægðarauka vil ég rifja upp að það var í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar sem gefin var út tilkynning um það að kostnaðurinn við að endurreisa bankakerfið yrði 400 milljarðar plús. Sú ríkisstjórn sem tók við taldi sig á þeim tíma gera það með 200 milljarða minni kostnaði með því að fara þessa leið.

Það er sömuleiðis rétt að rifja upp að þá þegar sem menn ræddu neyðarlögin í þinginu í bláupphafi bankahrunsins ræddu menn strax, m.a. af hálfu þáverandi stjórnarflokka, möguleikann á því að koma bönkunum í erlenda eigu. Ein af þeim leiðum sem var rædd þá, m.a. af hálfu Sjálfstæðisflokksins, var að kröfuhafarnir mundu eignast bankana tvo. Þessu vildi ég koma á framfæri vegna þess að það var ekki síðasta ríkisstjórn sem fann þá leið upp. Sú leið lá fyrir þegar sú ríkisstjórn tók við og þessar hugmyndir voru reifaðar af hinni ríkisstjórninni, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, og þar var sömuleiðis þegar búið að segja hvað hún taldi að þetta mundi kosta. Raunupphæðin varð lægri.