143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[15:50]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir. Ég ætla bara rétt að benda á — hv. þingmaður leiðréttir mig ef þarf — að þegar menn voru að ræða um að það kostaði um það bil 400 milljarða að endurreisa bankakerfið á Íslandi í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar — og það gleður mitt litla hjarta að hv. þingmaður skuli muna eftir þeirri ríkisstjórn, a.m.k. að Samfylkingin hafi verið í henni — hygg ég að hugsunin hafi verið að síðar yrði eignarhlutur ríkisins í bönkunum seldur og þar með fengist verulega upp í þessa fjárhæð þannig að nettókostnaðurinn yrði margfalt minni. Meðal annars litu menn til reynslu Svía upp úr 1990 þegar þeir endurreistu bankakerfi sitt eftir gríðarlegt áfall þar sem þeir skiptu bönkunum upp í góðar og slæmar eignir. Sænska ríkið hélt eftir eignarhlut í þessum slæmu eignum og náði á nokkrum árum upp í stærstan hluta af þeim kostnaði sem féll til vegna þeirrar endurreisnar.