143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[15:54]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að það sé kórrétt hjá hv. þingmanni að menn ræddu það. Ég held að innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins hafi verið hugmyndir um að rétt væri að reyna að losa einhverja af bönkunum til kröfuhafa meðal annars. Það eru alveg örugglega rök fyrir því og það er ekki það sem ég var að gagnrýna í sjálfu sér. Allt annað gildir um 300 milljarða skuldabréfið sem hvílir yfir okkur eins og mara. Sú ákvörðun var tekin með mjög undarlegum hætti og við hv. þingmaður hljótum að geta verið sammála um það.

Það sem skiptir líka máli í þessu sambandi, og ég gleymdi að víkja að, er ábending sem Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, setur fram, að þegar gengið var frá stofnefnahagsreikningi hinna föllnu banka, sem sagt stofnefnahagsreikningi nýju bankanna, hafi hugsanlega glatast tækifæri til að viðurkenna þá slæmu stöðu sem var hjá lántakendum á Íslandi. Það skiptir verulega miklu máli í þessu samhengi.

Ég held að hérna hafi verið gerð mistök, ég held að það kunni að vera rök fyrir því sem Jónas Fr. Jónsson segir, að gerð hafi verið gríðarleg mistök þegar gengið var frá stofnefnahagsreikningi nýju bankanna, að við sitjum uppi með sárt ennið og þess vegna sé svona erfitt að ná niðurstöðu og greiða úr skuldavanda íslenskra heimila. Það er eitt af því sem ég vil að við drögum fram og ég tel rétt að það verði rannsakað sérstaklega og gerð skýrsla með skilmerkilegum hætti líkt og Icesave.