143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[15:56]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um rannsókn á embættisfærslum og ákvörðunum íslenskra stjórnvalda og samskiptum þeirra við bresk og hollensk stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Evrópska efnahagssvæðinu, öðru nafni Icesave. Þeir bankareikningar og þetta orð hefur fylgt okkur allhressilega frá hruni. Við sem sátum á þingi frá 2007 og sitjum enn erum þess vel meðvituð hvað á gekk og hvernig við þurftum og lögðum okkur fram við að reyna að skoða, fara yfir og ná einhverjum tökum á að geta lagt fram niðurstöðu sem hugsanlega væri þjóðinni til hagsbóta. Það kom skýrt fram af hálfu þjóðarinnar mjög snemma og forgöngumenn þar að lútandi stofnuðu hóp sem fór gegn því að Íslendingum bæri að greiða Icesave og við ættum yfir höfuð að vera að vinna að því verkefni.

Þjóðin greiddi tvisvar atkvæði um Icesave-reikningana sem Alþingi hafði samþykkt og felldi þá báða. Þannig var það. Það breytir hins vegar ekki því að þetta mál hangir yfir okkur enn og það hangir yfir okkur í orðræðunni og það hangir yfir okkur vegna þess — sem sumir af flokksfélögum mínum hafa kallað þráhyggju mína þegar ég tala um skuldabréfið á milli nýja og gamla Landsbankans sem er á fjórða hundrað milljarðar. Það hangir yfir okkur þar til við höfum í það minnsta greitt það. Þess vegna meðal annars stend ég að þeirri tillögu sem hér er lögð fram. En ég ætla að taka það fram hér og nú og strax svo það fari ekki á milli mála, þegar ég gerðist meðflutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu um að rannsókn færi fram, að ekki er farið í þann leiðangur til að hefna sín á einum eða neinum og lýsi því yfir að ég, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, 3. þm. Suðvest., mun aldrei nokkurn tíma standa að því að Alþingi Íslendinga reyni aftur að draga fólk til ábyrgðar í gegnum landsdóm, aldrei, aldrei svo það sé sagt, aldrei. Ég áskil mér hins vegar þann rétt að vilja vita meira en ég veit í dag og sat ég þó á þingi þegar við fórum yfir þetta ferli allt saman frá upphafi til enda.

Mér finnst — eins og mörgum öðrum þingmönnum sem sátu þá og unnu í Icesave-samningunum og reyndu að lesa þá og komast að því hvað lá að baki því sem var og er, þ.e. að skilja hvað var á ferðinni — margt ekki útskýrt. Það er margt sem er hulið og við eigum sem þjóð rétt á því að farið sé yfir þetta allt frá A til Ö af þar til bærum einstaklingum, óháðum. Þannig er það. En ég frábið mér þann málflutning sem ég heyrði af hálfu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að í þessu felist hefnd gagnvart fráfarandi ríkisstjórn.

Í mínum huga á líka að skoða hvað ráðherrar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar lögðu til áður en ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna kom til vegna þess að þeirra þátttaka er líka rannsóknarinnar virði. Við getum ekki talað hér um þetta stóra mál sem var á Alþingi til umræðu í mörg ár eins og ekkert hafi í skorist, þetta mál sé úr böndum og farið frá okkur.

Virðulegi forseti. Mér finnst það í fyrsta lagi afar ómálefnalegt þegar við sem erum á tillögunni erum sökuð um að gera þetta í hefndarhug og þessi þingsályktunartillaga sé okkur til skammar. Slíkur málflutningur um jafn grafalvarlegt mál og Icesave-samningarnir voru og eftirstöðvar þeirra eru fyrir íslenska þjóð, það er okkur ekki samboðið að tala með þeim hætti.

Ég hef talað fyrir því að landsdómur yrði lagður niður. Ég mun óska eftir því við þingflokk Sjálfstæðisflokksins að fá að leggja fram slíkt frumvarp en það firrir engan þingmann né ráðherra ábyrgð á störfum og gjörðum. Ráðherraábyrgð getur verið fyrir hendi þó að landsdómur verði afnuminn og þannig á það að vera því gerumst við stjórnmálamenn sem ráðherrar berir að vanrækslu í starfi þá eigum við að bera á því ábyrgð og þá á að sækja okkur til saka á réttum vettvangi, ekki pólitískum vettvangi stjórnmálanna. Því fyrr sem við hrindum af stað rannsókn á öllu þessu ferli, því betra. Reynum að ræða málið út frá því að þetta skipti okkur máli, ekki út frá því að einhver vilji leggja stein í götu einhvers annars. Tilgangurinn er ekki sá.