143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

40 stunda vinnuvika.

19. mál
[16:31]
Horfa

Flm. (Róbert Marshall) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta mjög fínar ábendingar frá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur. Ég held að þetta sé allt saman opið til skoðunar og á meðal þess sem ég vonast að verði skoðað í nefndinni. Ég held líka að þær ábendingar sem hv. þingmaður kemur með varðandi jólin séu vissulega verðugar þess að við veltum þeim fyrir okkur. Ég er að minnsta kosti komin á þá skoðun að eðlilegra sé að það ríki ákveðinn stöðugleiki í þessum málum, að fólk fái alltaf frí um jólin. Það skiptir alla máli. Það er grundvöllurinn að hamingjuríku lífi að fólk geti haft tíma til þess að eiga stundir með fjölskyldu sinni og til þess er þetta líka hugsað. Þetta er mjög góð ábending hjá hv. þingmanni varðandi föstudaga. Aðrir hafa komið með þær ábendingar til mín eftir að þetta mál var kynnt að í mjög mörgum tilfellum tíðkist það að fólk vinni af sér þá daga sem falla á milli fimmtudags og helgar og í þeim tilfellum feli þetta í rauninni ekki í sér mikla hagræðingu, ekki aukið frí að minnsta kosti. En að sama skapi mætti sjá fyrir sér að fólk mundi jafnvel vinna af sér daginn fyrir fríið, þ.e. fimmtudaginn, og fengi enn lengra helgarfrí.

En ég held að þetta sé allt saman opið til umræðu og ekkert af þessu er meitlað í stein og á auðvitað bara að koma til umfjöllunar í hv. velferðarnefnd.