143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

skipun nefndar um málefni hinsegin fólks.

29. mál
[16:33]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um skipun nefndar um málefni hinsegin fólks. Meðflutningsmenn mínir á þeirri tillögu eru hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Svandís Svavarsdóttir og Oddný G. Harðardóttir.

Hér á Alþingi hefur oft náðst samstaða um mikilvægar breytingar í málefnum hinsegin fólks, breytingar í átt til aukinna mannréttinda og aukinna réttinda fyrir þessa hópa. Það er gleðilegt að oft hefur náðst samstaða um mikilvægar umbætur og réttarbætur á því sviði.

Hún vakti athygli mína úttekt sem kynnt var í vor, úttekt Evrópudeildar alþjóðasamtaka hinsegin fólks, ILGA Europe, á stöðu og framkvæmd málefna hinsegin fólks í Evrópulöndum sem sýnir samanburð á milli ólíkra ríkja og hvernig málum er háttað milli einstakra ríkja. Þau kynntu sem sagt úttekt sem birt var í svokölluðu regnbogakorti og þar er verið að kanna tiltekna hluti, virðingu fyrir funda-, félaga- og tjáningarfrelsi, löggjöf og stefnu gegn mismunun, hælisveitingar, lagalega staðfestingu á kyni, vernd gegn hatursorðræðu og svo fjölskylduviðurkenningu.

Það var áhugavert að sjá, af því að við höfum talið okkur í fremstu röð í þessum efnum, að Stóra-Bretland var með hæstu einkunn með 77 stig. Við vorum nokkru neðar en Noregur og Svíþjóð, fengum 56 stig, á svipuðum stað og Danmörk. Það var áhugavert að átta sig á því, þó kortið sýni fyrst og fremst þá mælikvarða sem ég nefndi hér áðan, að þarna er hægt að gera betur. Það snýst til að mynda um lagalega viðurkenningu á kyni og við sem vorum hér á síðasta þingi munum eftir ágætri umræðu um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda. Eitt af því sem bent hefur verið á er að það er mjög mikilvægt að greina hvernig sú löggjöf hefur reynst og hvað þurfi að bæta í þeim efnum.

Einnig hefur verið bent á löggjöf um mannanöfn og lög um þjóðskrá þannig að unnt verði að bera nafn þvert á skráð kyn. Einnig hafa verið nefnd lög um ættleiðingar og þá erum við komin að fjölskyldumálefnum hinsegin fólks. Það skiptir máli að þar jöfnum við stöðu fólks. Þá er líka ljóst að við getum gert miklu betur þegar kemur að fræðslumálefnum hinsegin fólks, hvort sem er í skólum eða á almannavettvangi, þ.e. upplýst allan almenning um ólíka hópa og gera fólk meðvitað um þessi málefni.

Síðan má líka nefna, og það var talsvert rætt hér á síðasta þingi, ekki síst í umræðu um löggjöf um fjölmiðla, að varnir gegn hatursorðræðu eru takmarkaðar, ófullkomnar, í íslenskri löggjöf. Mál sem maður telur að ættu að vera einföld eins og skráningareyðublöð hins opinbera sem virðast gera ráð fyrir gagnkynhneigð — það er mikilvægt að við hugum að því hvernig þau geta snúið jafnt að öllum óháð kynhneigð. Það er ljóst að þó við teljum okkur hafa staðið okkar vel og höfum gert það að mörgu leyti — og ég ítreka að það er gleðilegt að iðulega hefur náðst samstaða um þessi málefni — þá getum við gert betur á mörgum sviðum.

Við eigum talsvert af útlendum rannsóknum og skýrslum þannig að ég tel að gögn liggi fyrir um það sem þarf að gera. En það sem tillagan snýst um er að við setjum kraft í þessa vinnu til að stíga næstu skref í því að styrkja enn réttarstöðu hinsegin fólks. Tillagan snýst því um að beina því til hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra að skipa nefnd með þátttöku hagsmunaaðila, sérfræðinga og stjórnmálaflokka sem gerir tillögu að samþættri aðgerð á bættri stöðu hinsegin fólks í samfélaginu og að nefndin skili tillögum til ráðherra fyrir 1. febrúar 2014.

Ég vona að vilji sé til þess hér á þinginu að veita þingmannamálum brautargengi og ég tel þetta mál þess eðlis að góð samstaða ætti að geta náðst um það. Ég vona svo sannarlega að í meðförum nefndar sem væntanlega yrði hv. velferðarnefnd — ég vænti þess að hægt verði að afgreiða tillöguna úr nefndinni þannig að hægt verði að setja vinnuna í gang. Það skiptir okkur miklu máli, þegar við horfum á þessa stöðu, að við reynum að gera okkar besta í þeim efnum. Ég er nokkuð viss um að við getum náð pólitískri samstöðu. Við eigum að nýta okkur þekkinguna sem býr til að mynda í frjálsum félagasamtökum á borð við Samtökin '78. Við eigum líka að nýta okkur þá þekkingu sem býr innan háskóla- og fræðasamfélagsins. Ég vonast til þess að tillagan hljóti afgreiðslu og að um hana geti náðst sátt þannig að við getum verið stolt af því að stíga fleiri skref í þessa átt og sýna árangur helst strax á næsta ári.