143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

brottnám líffæra.

34. mál
[17:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir ágæta ræðu þar sem hún reifaði þetta mál. Það hefur reyndar komið fyrir þingið áður. Það gengur eiginlega út frá því að fólk þekki lög. Nú er það þannig að fólk þekkir yfirleitt ekki lög. Ef við færum út á götu og spyrðum menn hvort þeir vissu eitthvað um þetta mál er ég nærri viss um að það sárafáir vissu eitthvað um það. Það er akkúrat vandamálið í þessu máli.

Velflestir vilja gefa blóð og nýru og fleira, þannig að ég hugsa að það sé nú rétt að velflestir vilji gefa þetta, en svo eru hins vegar menn og konur sem ekki vilja það, t.d. af trúarlegum ástæðum. Einn sem ég talaði við óttaðist að hann væri ekki almennilega dauður þegar búið væri að taka úr honum líffærin o.s.frv., þannig að það eru ýmis atriði í þessu máli.

Í fyrsta lagi er spurningin: Á samfélagið líkama okkar? Það er spurningin sem mér finnst að heimspekingurinn komist að niðurstöðu um, að í rauninni sé hægt að færa rök fyrir því að allir vilji gefa líffæri þó að þar með sé hægt að ætlast til þess að menn samþykki það af siðferðilegum ástæðum. Ég er ekki sammála því. Ég held að einstaklingurinn eigi að geta tekið um það ákvörðun.

Ég spyr hv. þingmann: Hafa nefndarmenn kynnt sér það sem fram kom hjá mér í fyrri umræðu um að þetta yrði sett í framtal, þ.e. að þegar menn teldu fram hökuðu þeir við einn reit: „Ég vil gefa líffæri“ eða „Ég vil ekki gefa líffæri“? Þar með lægi það fyrir. Það liggur svo hratt fyrir að hægt er að fá upplýsingar á engum tíma, það þarf ekki að leita uppi ættingja eða aðra slíka til að fá samþykki. Það er hægt að fá svarið strax. Oft er þetta spurning um mínútur eða sekúndur hvort hægt sé að nýta líffærin. Ég verð að segja eins og er að mér finnst það miklu betri leið.

Ég spyr hv. þingmann: Könnuðu flutningsmenn málsins þá leið í staðinn fyrir að ætla að ganga út frá því að samfélagið eigi líkama fólks?