143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

brottnám líffæra.

34. mál
[17:07]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Ég heyri það á máli hv. þingmanns að við erum sammála í stórum dráttum, þ.e. við erum örugglega sammála um að við viljum fjölga líffæragjöfum á Íslandi þannig að fleiri geti fengið betri lífsgæði og jafnvel bjargað lífi einstaklinga. Ég held að það sé alveg ljóst.

En eins og ég fór yfir áðan í ræðu minni liggur stór siðferðisleg hugmynd þarna að baki, að það sé eðli mannsins að vilja hjálpa náunganum, að við viljum gefa frekar en að gera það ekki. Hugmyndin með frumvarpinu er akkúrat að einfalda ferlið þannig að það séu færri spurningar en eru nú í dag til þess að þurfa ekki að standa frammi fyrir ættingja í sorg og þurfa að spyrja hann: Má ég taka líffærin úr ættingja þínum? Það er ekki staða sem fólk vill vera í. Það væri mun hreinlegra að hafa þetta í einhvers konar skrá eins og hv. þingmaður bendir á. Það er þá eitt útfærsluatriði. Eiga að vera tveir krossar: Já eða nei? Á að vera einn kross? Eða bara nei og ganga út frá ætluðu samþykki?

Eins og hv. þingmaður bendir á er málið búið að vera lengi í pípunum og það er kominn tími til að við klárum það. Ég er sannfærð um það að miðað við þann áhuga sem málið hefur vakið og hversu þverpólitískt það er, sem sést á meðflutningsmönnunum, að við hljótum að geta lent því þannig að það verði öllum til heilla.