143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

brottnám líffæra.

34. mál
[17:08]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil, sem meðflutningsmaður á því frumvarpi sem hér er lagt fram, þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur. Frumvarpið fjallar um breytingu á lögum um brottnám líffæra, nr. 16/1991. Það eru atriði í þessu sem ég vildi fá tækifæri til að hnykkja á. Það eru framfarir í læknavísindum sem gera okkur kleift að bjarga fleiri mannslífum og svo er möguleiki á því að færa okkur nær löggjöf í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi og í fleiri löndum reyndar.

Svo er það hin siðferðislega hlið sem komið var inn á í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ég trúi því að við séum sammála þar. Þetta er spurning um útfærslu og er ekki annaðhvort ætlað samþykki eða ætluð neitun heldur hvort tveggja. Við getum þá gert upp við okkur að kosturinn við það — það má vel vera að það geti bætt frumvarpið — er að um leið er hægt að upplýsa og fræða. Það er mjög mikilvægt að áætluðum breytingum fylgi upplýsingagjöf og fræðsla.