143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

kosningar til Alþingis.

68. mál
[17:21]
Horfa

Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er í annað skipti sem ég mæli fyrir þessu frumvarpi hér á Alþingi. Reyndar hef ég verið 1. flutningsmaður að því í tvö skipti í viðbót en málið komst ekki á dagskrá á tveimur þingum.

Með frumvarpinu er lagt til að persónukjör verði fært í lög um kosningar til Alþingis. Ég lít á það sem mikla lýðræðisbót ef frumvarpið nær fram að ganga. Af hverju? Jú, af því að það veitir kjósendum meiri völd í kjörklefunum. Kjósendur geta þá haft meiri áhrif á hverjar eða hverjir veljast til þeirra starfa en raunin er nú. Möguleikar íslenskra kjósenda til að hafa áhrif á hvaða einstaklingar ná kjöri í kosningum eru minni en almennt tíðkast í löndunum í kringum okkur ef frá eru taldar kosningar til þings í Noregi.

Virðulegi forseti. Sumir gera lítinn greinarmun á prófkjörum og persónukjöri og segja hið síðarnefnda framlengja prófkjör fram á kjördag. Ég er ósammála því. Að minnsta kosti tvö veigamikil atriði gera það að verkum að ekki er hægt að leggja prófkjör og það sem við köllum persónukjör að jöfnu. Í fyrsta lagi er persónukjör að mínu mati réttindi sem ber að tryggja kjósanda í lýðræðisríki. Þau réttindi tel ég að eigi að vera lögbundin og þess vegna tel ég að persónukjör eigi lítið skylt við prófkjör. En ef við föllumst á það að eitthvað sé skylt með prófkjörum og persónukjöri þá er stjórnmálaflokkunum það í sjálfsvald sett hvort þeir halda yfirleitt prófkjör eða ekki, og jafnvel þó að skráð sé í reglur stjórnmálaflokka að halda skuli prófkjör þá liggur í augum uppi að tiltölulega auðvelt er að breyta því. Einhverjir flokksmenn koma saman og ákveða að breyta því og þeir sem eru ekki í flokknum, þ.e. eru óflokksbundnir sem er reyndar meiri hluti kjósenda, hefðu ekkert um það að segja að sá kostur að halda prófkjör væri afnuminn. Við þetta má bæta að í flestum tilfellum er þátttaka í prófkjörum bundin við þá sem skráðir eru í flokk eða lýsa yfir stuðningi við tiltekinn flokk. Þar með eru réttindi þeirra sem vilja vera óflokksbundnir og halda pólitískum skoðunum fyrir sig minni en hinna að þessu leyti. Mér finnst það beinlínis ólýðræðislegt að líta fram hjá réttindum þessa fólks.

Það eru vissulega margar aðferðir til við persónukjör. Í Finnlandi hefur kjósandinn einn kross sem hann notar til að merkja við eitt nafn og um leið gefur hann flokki frambjóðandans atkvæði sitt. Í Svíþjóð hefur kjósandinn ekki eins mikil áhrif en þó nokkur. Þar getur kjósandinn einnig notað einn kross annaðhvort til að merkja við lista sem hefur verið raðað eða til að merkja við eitt nafn og lyfta þannig einum frambjóðanda upp, ef svo má að orði komast, en listinn fær náttúrlega atkvæðið líka. Frambjóðandi sem fær ákveðið lágmark, það var 8%, ég er satt að segja ekki alveg viss hvort það hafi nýlega verið lækkað aðeins, atkvæða flokksins merkt sérstaklega við sig nær kjöri hvar sem hún eða hann var á hinum raðaða lista.

Það fyrirkomulag sem lagt er til í þessu frumvarpi gengur lengra að því leyti að kjósandinn getur greitt frambjóðendum á fleiri en einum lista atkvæði sitt, þ.e. hann getur valið frambjóðendur þvert á flokka. Samkvæmt frumvarpinu hefur kjósandinn um þrjá kosti að velja. Hann getur merkt við listabókstaf enda fellir hann sig við þá röð sem hefur verið sett á lista. Hann getur merkt við einn frambjóðanda og þá nýtist atkvæðið þeim lista sem frambjóðandinn sem atkvæðið hlýtur á sæti á en atkvæðið vegur náttúrlega þyngra fyrir þann frambjóðanda en hina sem eru kannski fyrir ofan hann á listanum. Í þriðja lagi getur hann skipt atkvæði sínu á svo marga frambjóðendur sem fjöldi þingmanna í viðkomandi kjördæmi segir til um og þannig kosið einstaklinga af hvaða lista sem vera skal. Sé kosið með þeirri aðferð skiptast atkvæðin milli lista í þeim hlutföllum sem kjósandinn hefur ákveðið.

Í greinargerð með frumvarpinu er því lýst hvernig atkvæði reiknast listum og frambjóðendum. Þetta er svolítið flókið, virðulegi forseti, en ég ætla samt að renna í gegnum það. Segjum svo að atkvæði greidd lista skiptist þannig að 3.000 atkvæði séu greidd listanum einum og ekki merkt við neina frambjóðendur en 3.300 atkvæði hafi verið greidd frambjóðendum listans persónulega. Samtalan er þá 6.300 atkvæði sem ráða því hversu mörg þingsæti listinn hlýtur. Niðurstaðan gæti orðið tvö þingsæti. 3.000 atkvæði greidd listanum skiptast sem persónuleg atkvæði á fjóra efstu menn listans. Þeir hinir sömu gætu hafa fengið að auki einhver af hinum 3.300 persónulegu atkvæðum. Hafi hins vegar frambjóðandi neðar á listanum fengið fleiri persónuleg atkvæði en samanlögð atkvæði einhvers þessara fjögurra efstu þá flyst hann ofar og gæti hlotið kosningu.

Lýsingin verður svo enn flóknari þegar kemur að því að atkvæði skiptist á milli flokka. Ég ætla að taka dæmi af kjósanda sem kýs að skipta atkvæði sínu á tíu staði, sem er hámark þar sem þingmenn kjördæmisins úr dæminu eru fimm. Kjósandinn hefur ákveðið að dreifa atkvæði sínu á milli lista. Listarnir hljóta þá brot úr atkvæði. Í því dæmi sem tekið er merkir kjósandinn við einn frambjóðanda á listum A og B, 1/10 úr atkvæði hvor. Hann merkir við þrjá frambjóðendur á listunum C og D sem eru þá 3/10 úr atkvæði hver. Loks merkir kjósandinn svo við tvo af lista F sem fær 2/10 úr atkvæði. Samtals gerir þetta einn heilan og kjósandinn hefur jafnframt kosið tíu einstaklinga.

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði þá er þetta nokkuð flókið og ég vil benda á greinargerð með frumvarpinu sem lýsir þessu mun nánar. Það er á vef Alþingis.

Virðulegi forseti. Ég ætla að víkja stuttlega að áhrifum persónukjörs á fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna og áhrifum persónukjörs á endurnýjun á kjörnum fulltrúum og loks að áhrifum persónukjörs á kynjahlutfall kjörinna fulltrúa. Þetta eru atriði sem oft eru talin vera mótrök gegn því að taka upp persónukjör. Það liggur í augum uppi að flóknara verður að halda utan um fjármál flokka ef persónukjör er innleitt en ef stjórnmálaflokkar stilla framboðslista á flokksskrifstofum. Mér þykir þó fráleitt að halda að erfiðara sé að hafa skikk í þeim efnum við persónukjör en við prófkjör eins og þau tíðkast hér á landi. Eftirlit með því að farið sé að lögum og reglum um fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna þarf að vera í lagi. Það á við hvort heldur persónukjör er leyft eða ekki. Persónukjör breytir þar ekki nokkru um. Ég tel að þau mótrök að mun erfiðara verði að halda utan um hið fjármálalega eftirlit til að koma auga á misnotkun á fjármunum eða þeim reglum sem í gildi eru um fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna ættu ekki að koma í veg fyrir persónukjör.

Því hefur verið haldið fram að endurnýjun verði minni og auðveldara sé fyrir þá sem fyrir eru að ná kjöri ef um persónukjör er að ræða en ef flokkar stilla upp. Rannsóknir hafa sýnt að sitjandi þingmenn og sveitarstjórnarmenn hafa meiri möguleika á að ná kjöri en nýliðar hvert sem kosningakerfið er. Þó hefur verið sýnt fram á að meiri endurnýjun á sér stað þegar listar eru bornir fram, þ.e. í hlutfallskosningum, en í einmenningskjördæmum. Einnig hefur verið sýnt fram á að endurnýjun er meiri í stærri kjördæmum en minni. Engar rannsóknir sem ég hef rekist á sýna að persónukjör hafi einhver sérstaklega neikvæð áhrif í þessum efnum. Það virðist því vera, virðulegi forseti, að eina leiðin til að tryggja endurnýjun sé sú að setja hámark á þann tíma sem fólk má gegna stöðum eða embættum sem kosið er til.

Virðulegi forseti. Loks um kynjahlutföll. Því er gjarnan haldið fram að persónukjör hafi slæm áhrif á kynjahlutföll, á Alþingi í þessu tilfelli, og hlut kvenna á þjóðþingum eða í sveitarstjórnum sem kjörið er til. Það eru hins vegar engar rannsóknir til sem sýna að svo sé en í vangaveltum um þetta er oft bent á að konur eigi frekar á brattann að sækja í persónukjöri en þegar flokkar ráða alfarið röð á listum. Sumir stjórnmálaflokkar hafa lagt mikla áherslu á jöfn kynjahlutföll hér á landi og hafa sett sér reglur þar um og náð góðum árangri. Þá segja menn: Við megum ekki spilla þeim árangri. En, forseti, ég held að það sé nauðsynlegt í þessum efnum sem öðrum að halda sig við staðreyndir og staðreyndirnar eru þær að engar rannsóknir liggja fyrir um það að persónukjör hafi áhrif á hlut kvenna í kosningu til þings eða sveitarstjórna. Í þessari umræðu hefur einnig verið bent á að hlutur kvenna á þjóðþingum annars staðar á Norðurlöndum er mikill í samanburði við aðrar þjóðir og þar er persónukjör við lýði. Áhrif kjósenda á hverjir ná kjöri eru mjög mikil í Finnlandi en minni bæði í Svíþjóð og Danmörku; hlutfall kvenna þar á kjörnum samkomum er hátt. Á þjóðþingi Írlands þar sem persónukjör vegur mjög þungt er hlutur kvenna vissulega lítill en talið er að það megi frekar rekja til annarra þátta í írsku þjóðfélagi en kosningafyrirkomulagsins. Kjör Mary Robinson sem forseta Írlands hefur einmitt verið notað sem kennslubókardæmi um hvernig atkvæði nýtast í írska kosningakerfinu þar sem vald kjósandans í kjörklefanum er mjög mikið.

Virðulegi forseti. Ég minni á að í kosningu til stjórnlagaþings hér á landi var gert ráð fyrir í reglunum að fulltrúar gætu orðið á bilinu 25–32 til þess að hægt yrði að jafna kynjahlutföll eftir á. Kosningin féll hins vegar þannig að ekki þurfti að nota þetta svigrúm vegna þess að kjósendur sáu til þess sjálfir að kynjahlutfallið var jafnt. Ég held að það sé reyndar orðið þannig hér á landi að fólk hafi í huga að kynjahlutföll eigi að vera sem jöfnust. Ég held að okkur konum stafi engin hætta af því þó að kjósandinn hefði meiri völd í kjörklefanum en hann hefur nú, nema síður væri.

Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekki að spá fyrir um hvernig kjósendur muni nýta sér þann möguleika að kjósa fólk af hinum ólíku framboðslistum. Stjórnmálaflokkar standa auðvitað fyrir ákveðna lífssýn og frambjóðendur þeirra eru eða ættu alla vega að vera merkisberar þeirrar lífssýnar, en við þurfum að átta okkur á því að persónukjör eru ekki fyrir stjórnmálamenn eða stjórnmálaflokka. Það er ekki þess vegna sem tillagan er lögð fram heldur er persónukjör fyrir kjósendur svo að þeir hafi meira vald, þeir hafi meiri áhrif. Einhverjir þeirra kunna að vilja velja fólk til starfa fremur en stjórnmálaflokka. Við gerum þeim það kleift með því að afgreiða þetta frumvarp.

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta er í efnisatriðum samhljóða frumvarpi sem Vilmundur Gylfason flutti á Alþingi í febrúar árið 1983, þ.e. fyrir rúmum 30 árum. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og miklar breytingar orðið í mörgum ef ekki flestum efnum. Ekkert hefur þó bifast í þeim efnum sem þetta frumvarp lýtur að. Ég ætla að láta öðrum það eftir að álykta um af hverju svo er.

Virðulegi forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.