143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

stuðningur við sjálfsákvörðunarrétt íbúa Vestur-Sahara.

88. mál
[17:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil í örstuttu máli lýsa stuðningi mínum við þessa þingsályktunartillögu sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir er 1. flutningsmaður að. Ég er í prinsippinu þeirrar skoðunar eins og ákaflega margir Íslendingar, held ég, að þjóðir eigi að hafa sjálfstæðan rétt til að ákvarða um framtíð sína og hvort þær séu hluti af öðru ríki eða sjálfstætt ríki. Ég tel að það eina hugsanlega sem 1. flutningsmaður og frumkvöðull að tillögunni hefði getað gert betur væri að leiðbeina hæstv. utanríkisráðherra um það hvernig hann á að gera þetta með því að vísa til þess hvernig fyrri ríkisstjórn stóð að málum gagnvart Palestínu.

Stuðningur Íslands við fullveldi Palestínu var ekkert sem datt af himnum ofan. Við tókum þrjú ár í að undirbúa hann. Málið var ákaflega umdeilt og þess vegna var mikilvægt fyrir okkur og reyndar kannski Palestínu líka að við gerðum það algjörlega heyrum kunnugt með löngum fyrirvara hvað við hygðumst fyrir. Það gerðum við. Ríkisstjórnin fól mér að flytja stuðninginn hvarvetna sem ég gæti og ekki síst á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Við gerðum afstöðu okkar mjög ljósa þar áður en við gripum til þess að stíga hið mikilvæga skref og á þeirri vegferð allri fikruðum við okkur stöðugt nær því marki og það var mikilvægt. Kannski mikilvægara í því tilviki af því að eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir veit voru voldug bandalagsríki mjög andsnúin þeirri ákvörðun og gerðu svo sem sitt til að hafa áhrif þar á þó að minna bæri á þeirri viðleitni en við bjuggumst við vegna þess að um svipað leyti brast á Wikileaks-málið og bandarísk stjórnsýsla lamaðist um skeið.

Íslendingar hafa feril í þessum málum. Við höfum alltaf ef á hefur þurft að halda stigið skrefinu lengra en aðrar þjóðir til að hjálpa litlum þjóðum sem hafa verið að brjótast til sjálfstæðis. Ég vísa til þess að sjálfsögðu, sem er þekktasta dæmið, þegar Íslendingar 1991 staðfestu og lýstu yfir stuðningi við endurnýjað fullveldi Eystrasaltsþjóðanna þriggja. Á þeim tíma munaði um þann stuðning. Þá hafði um sex mánaða skeið verið biðstaða þar sem ekkert ríki þorði að stíga það skref. Þeim mun stærra og afdrifaríkara var það vegna þess að nákvæmlega þá voru Íslendingar að endurnýja viðskiptasamning við hinn volduga granna Eystrasaltsþjóðanna. Það sýndi hugrekki sem vert er að menn gleymi ekki en þar var líka ákveðið fordæmi tekið. Íslendingar hafa fylgt því síðan. Í kjölfarið gerðist það líka að Íslendingar, fyrstir allra þjóða, tóku þá afstöðu að lýsa stuðningi við fullveldi Króatíu sem þarlendir hafa ekki gleymt enn og sömuleiðis við Svartfjallaland. Þetta skipti allt saman máli.

Ég tel þess vegna að umrædd þjóð verðskuldi stuðning okkar líka. Hún hefur verið alveg eins og Palestínumenn undirokuð og kúguð áratugum saman og auðlindum stolið af henni. Því miður, og ég get þess af því að ég hlustaði ekki á framsögu hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur, hafa Íslendingar komið að þeim stuldi og lagt gjörva hönd á að hjálpa kúgaranum til þess að arðræna þjóðina og taka af henni auðlindir. Það er okkur ekki fagur vitnisburður.

Ég tek því undir tillögu hv. þingmanns og þeirra sem flytja hana með henni. Mér sýnist að hér sé mjög svipað dæmi í gangi og hjá Palestínu en við höfum alltaf á alþjóðavettvangi beitt okkur fyrir því að styðja fullveldi smárra þjóða og rétt þeirra til að ákveða framtíð sína. Samþykkt þingsályktunartillögunnar, sem er nú ekki meira en að gefa hæstv. utanríkisráðherra svolitla leiðbeiningu um það hvernig hann á að haga rödd sinni og málflutningi fyrir hönd Íslands þar sem hann talar á palli fyrir okkur. Því vænti ég þess að þingheimur samþykki þetta mál og hjálpi síðan hæstv. utanríkisráðherra að undirbúa þau skref. Ég er viss um að ég og hv. 1. flutningsmaður getum verið sammála um það að sjálfsagt er að gefa honum tvö, þrjú ár, jafnvel til loka kjörtímabilsins. Menn þurfa að undirbúa svona lagað vel eins og við hv. nokkrir þingmenn sem sátum í fyrri ríkisstjórn vitum. Takk fyrir tillöguna.