143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

stuðningur við sjálfsákvörðunarrétt íbúa Vestur-Sahara.

88. mál
[17:50]
Horfa

Sigurjón Kjærnested (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir góða ræðu og yfirferð á þessu góða og mikilvæga máli. Ég kveð mér hljóðs til að styðja þetta góða mál vegna þess að Sahrawi-þjóðin hefur mjög lengi þurft að búa við ítrekuð mannréttindabrot af hálfu stjórnvalda í Marokkó. Ég gæti lesið upp langan lista yfir þau mannréttinda- og alþjóðasamtök sem hafa ítrekað fordæmt þessi mannréttindabrot. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að alþjóðasamfélagið hafi aldrei viðurkennt innlimun Vestur-Sahara í Marokkó sem er rétt, og réttilega.

Sahrawi-þjóðin kann að vera fámenn en hún er á margan hátt merk þjóð með merka sögu og menningu. Þjóðin er samheldin sem sést til dæmis á því að þrátt fyrir 37 ára þrautagöngu núna gegn Marokkó og mun lengri þrautagöngu gegn Spánverjum standa þeir enn saman og halda baráttunni áfram sem er virðingarvert og kallar á að aðrar þjóðir, fámennar en merkar eins og Ísland, styðji við baráttu þeirra.

Það er eitt atriði sem ég mundi vilja benda hv. 1. flutningsmanni og hv. utanríkismálanefnd á sem er að mögulega mætti bæta við í þessa góðu þingsályktunartillögu hvatningu til utanríkisráðherra um að standa einnig fyrir öflugra alþjóðlegu átaki í hreinsun jarðsprengna á svæðinu. Það er staðreynd, en ekki mjög þekkt, að þarna er eitt af stærri jarðsprengjusvæðum sem eftir eru í heiminum. Af mínum lestri að dæma er um það bil metri á milli jarðsprengna, þrjár raðir, og þarna fara hirðingjar um. Ég bendi vinsamlegast á að það mætti mögulega vera með í þessari tillögu.

Virðulegi forseti. Það er mín skoðun að á okkur Íslendingum hvíli siðferðisleg skylda til að styðja við aðrar fámennar en merkar þjóðir sem standa í slíkri baráttu. Í ljósi sögu okkar eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór mjög vel yfir áðan hvílir þessi skylda á okkur og við eigum að vera stolt af því og halda því áfram. Vísa ég þar sérstaklega til þeirrar góðu vinnu sem var unnin á síðasta kjörtímabili varðandi Palestínu, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór yfir.