143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að vekja athygli á þessu Netflix-máli sem hefur verið í umræðunni undanfarið og hvað það er stórskemmtilegt hvað SMÁÍS, hagsmunasamtök meðal annars 365 miðla, er orðið grímulaust í hagsmunagæslu sinni fyrir hluta umboðsaðila sinna. SMÁÍS vill viðskiptahindranir sem verja fjárfestingar nokkurra umboðsaðila sinna í 20. aldar viðskiptalíkani. Forstjóri eins þeirra, 365 miðla, skrifar í Fréttablaðið þar sem hann fullyrðir að Netflix sé, með leyfi forseta, „dæmi um þjónustu sem ekki er boðin löglega hér á landi“. En fyrirtæki hans stafar ógn af samkeppni við Netflix.

Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri SMÁÍS, ætlar að leggja fram kæru á hendur Tali og Netflix öðrum hvorum megin við helgina fyrir brot á lögum um höfundarétt. Hann segir að það komi skýrt fram í höfundaréttarlögum að ekki megi fara fram hjá tæknilegum ráðstöfunum er varða höfundarvarið efni.

Hverjar eru þessar tæknilegu ráðstafanir? Það útskýrði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins vel fyrir þingmönnum sem flutningsmaður þess ákvæðis í íslensk lög eftir tilskipun Evrópusambandsins. Þingmenn samþykktu þau ákvæði samhljóða í þessum sal. Þar segir hún í framsöguræðu sinni, með leyfi forseta:

„Ákvæðum frumvarpsins um vernd tæknilegra ráðstafana er með öðrum orðum ekki ætlað að vernda ýmsar ráðstafanir útgefenda hljóð- og myndrita til að skipta heiminum upp í tiltekin markaðssvæði …“

Það kemur alveg skýrt fram að ef efnið hefur verið gefið út á Evrópska efnahagssvæðinu megi nálgast það með hliðstæðum hætti og er í boði hjá Tali og Flix og það kemur líka fram í dómi Evrópudómstólsins, European Court of Justice, í október 2011. (Forseti hringir.) Það er því löglegt að sækja sér Netflix á Íslandi í dag.