143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli hv. þingmanna á að yfirstandandi vika er tileinkuð jafnrétti. Dagur Sameinuðu þjóðanna er 24. október, en einmitt á þeim degi tóku íslenskar konur sér frí og gerðu sér dagamun árið 1975, málstað jafnréttis mjög til framdráttar.

Íslendingum, og þar með þingmönnum, lætur oft betur að benda á það sem miður fer fremur en að minnast ávinninga. En það var ekki hægt annað en að finna fyrir stolti á þingi Sameinuðu þjóðanna þegar ítrekað var sagt frá því þar að konur og jafnréttismál væru orðin jákvætt vörumerki fyrir Ísland. Þegar þessi málefni ber á góma hjá Sameinuðu þjóðunum er horft hingað, til Íslands. Fastanefnd okkar í New York heldur málstað jafnréttis mjög á lofti og hefur komið lagfæringum inn í alþjóðasamþykktir og ályktanir.

Okkur var reyndar tjáð að Ísland væri hvað best þekkt fyrir þrennt í þessu alþjóðlega umhverfi, þ.e. fiskinn, konurnar og landgræðsluna. Ólíkt, en hvað er sameiginlegt? Jú, hér á landi er skóli á vegum Sameinuðu þjóðanna í þessum málaflokkum og það hefur greinilega skilað miklum árangri.

Er ég var rétt stigin á íslenska grundu aftur kom fréttatilkynning um að Ísland sé í fyrsta sæti fimmta árið í röð í mati á jafnrétti kynjanna í úttekt sem Alþjóðaefnahagsráðið gerði. Reyndar raða hinar Norðurlandaþjóðirnar sér allar í næstu sæti. Við getum sannarlega verið stolt af þessum árangri okkar en við náum ekki að ráða við hinn kynbundna launamun og það er eitthvað sem við verðum að taka alvarlega á.

Reyndar er önnur hlið á þessum peningi er kemur löndum sunnar á hnettinum við. Þar er útkoman hvað konur varðar oft og tíðum alveg skelfileg og við fundum líka sannarlega fyrir því þarna.

Við eigum mörg falleg orð í íslenskri tungu og (Forseti hringir.) eitt er orðið „fjölskylda“, fjöl-skylda, og samkvæmt Grágás, okkar fornu lögbók, merkir orðið „hópur sem hefur skyldur innbyrðis gagnvart hvert öðru“. Við skulum halda þeirri túlkun í heiðri.