143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er búin að sakna ykkar, hv. þingmenn, ég sakna þess hvað við hittumst sjaldan í þessum þingsal. Mér fannst mjög skringilegt að það átti að vera nefndadagur í gær, sem er heill dagur tileinkaður nefndastörfum, en það varð fundarfall þar í báðum nefndunum mínum. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því að engin mál komi inn, við hv. þingmenn getum sett saman þingmannamál og höfum gott tækifæri núna til að fá þau í gegnum nefndirnar og í lokaumræðu og í lokaafgreiðslu á þingi þannig að við ættum að nota tækifærið og þrýsta á að fjallað sé um þessi mál í nefndunum okkar.

Ég hef ekki sérstakar áhyggjur af frumvörpum frá ríkisstjórninni, þau koma bara þegar þau koma og við erum búin að setja okkur ákveðinn ramma um hvernig við ætlum að vinna að þeim málum, en ég hef áhyggjur af því hvað við hittumst sjaldan. Ég hef áhyggjur af því að við höfum ekki tækifæri til að veita framkvæmdarvaldinu nægilegt aðhald og við megum ekki láta plata okkur út í svona mikið frí.

Ég skoðaði það og vakti athygli á því hvernig fyrirkomulagið verður næsta sumar. Við munum nánast ekki neitt hittast sem löggjafarvald í fjóra mánuði út af sveitarstjórnarkosningum. Mér finnst það algerlega ótækt af því að það þýðir að við getum ekki veitt framkvæmdarvaldinu aðhald, en til þess erum við hér meðal annars.

Ég hefði viljað ræða við þingmenn um það af hverju ég hef ekki séð nafn Íslendinga á ályktun hjá Sameinuðu þjóðunum sem kemur frá Þýskalandi og Brasilíu um gríðarlega mikla gagnaöflun og njósnir um almenning. Mig langar að athuga hvort einhver hér geti svarað því hvort við erum með á þeirri ályktun (Forseti hringir.) eða ekki.