143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að taka undir með hv. þingmanni sem síðastur talaði og sagði: Gefið okkur von. Ég held að okkur hafi verið gefin von þegar hæstv. innanríkisráðherra og formaður borgarráðs náðu samkomulagi um að Reykjavíkurflugvöllur yrði þar sem hann er í það minnsta til 2022. Það gefur okkur tækifæri til að leita leiða til þess að finna flugvellinum stað á höfuðborgarsvæðinu. Eins og hv. þm. Óttarr Proppé sagði er höfuðborg höfuðborg og þar þarf ýmislegt að vera sem laðar að fólk og fælir það ekki frá.

Flugvöllur er eitt í þeim efnum. Ég fagna samkomulagi sem ríki og borg gerðu um flugvöllinn. Ég vona að það veiti okkur tækifæri til að vinna í sátt að því að finna flugvellinum samastað hvar svo sem hann verður í Reykjavík. Ég virði að sjálfsögðu skipulagsvald Reykjavíkurborgar í þessum efnum en tel mikilvægt, og legg á það áherslu, að innanlandsflugið og flugvöllur þess verði frá Reykjavík. Það er grunnur að mörgum öðrum þáttum sem snúa að höfuðborginni.

Þegar við þingmenn lofum, vítt og breitt á ferðum okkar meðal kjósenda, einu og öðru þyrftum við að íhuga í loforðaflaumnum að til þess að við getum staðið við loforð þurfum við að breyta lögum eða setja ný lög. Í því er starf okkar fólgið, þ.e. að lagfæra lög og breyta lögum. Þannig getum við uppfyllt loforð okkar, ekki öðruvísi.