143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

staða kvenna innan lögreglunnar.

[15:49]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er vissulega ánægjulegt að á þessu sé tekið. Þetta er grafalvarlegt mál en þetta er ekki bara einkamál lögreglunnar vegna þess að þetta getur endurspeglast út um þjóðfélagið. Karlar eru ríkjandi innan lögreglunnar. Þeir eru þar í meiri hluta, rúmlega 87% starfsmanna þar eru karlar. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að það er tilhneiging til að starfsmenn á slíkum vinnustöðum haldi uppi menningu sem kalla má kvenfjandsamlega.

Úr niðurstöðum skýrslunnar ætla ég að geta um nokkur atriði. Þrjár af hverjum tíu lögreglukonum hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni oftar en tvisvar sinnum á undangengnum sex mánuðum, m.a. af hálfu yfirmanns. Ekki er brugðist við ítrekuðu einelti af hálfu karlkyns yfirmanna og upplifun kvenkyns lögreglumanna er að karlar og konur hafi ekki jafna möguleika og að komið sé öðruvísi fram við þær en karla og gengið fram hjá þeim við skipun í ábyrgðarstöður.

Eins og ég sagði er þetta ekki einkamál lögreglunnar. Ég ætla að leyfa mér að vitna til greinar sem formaður og varaformaður kvennahreyfingar Samfylkingarinnar, þær Heiða Björg Hilmisdóttir og Margrét Lind Ólafsdóttir, rituðu í tilefni af birtingu könnunarinnar undir fyrirsögninni „Ógn við réttaröryggi íslenskra kvenna“. Með leyfi forseta:

„Það er grafalvarlegt mál að innan lögreglunnar, útvarðar réttarvörslukerfisins, viðgangist víðtækt kynbundið ofbeldi og kvenfjandsamleg viðhorf eins og könnunin sýnir.“

Og síðan, með leyfi forseta:

„Ástandið innan lögreglunnar er alvarleg ógn við réttaröryggi kvenna á Íslandi og því miður er óhjákvæmilegt að setja það í samhengi við ótrúlegt getuleysi réttargæslukerfisins í viðbrögðum við kynferðisofbeldismálum. Fáar kærur og dómar vegna nauðgana, vændiskaupa og annars kynferðisofbeldis tala þar sínu máli.“

Virðulegi forseti. Ég er ánægð með að (Forseti hringir.) hæstv. innanríkisráðherra ætlar að bregðast við þessu og ég styð hana eindregið til góðra verka í því en ég vil endurtaka að þetta er ekki (Forseti hringir.) einkamál lögreglunnar. Hættan er að þetta endurspeglist út í allt þjóðfélagið.