143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

staða kvenna innan lögreglunnar.

[15:54]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Um leið og vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Björt Ólafsdóttur, fyrir að vekja máls á því sem við ræðum hér vil ég lýsa því yfir að mér finnst leitt að þessi umræða skuli þurfa að eiga sér stað.

Þegar við skoðum þær aðgerðir sem lögreglan hefur farið í varðandi jafnréttismál innan sinna raða má segja að þar hafi töluvert verið gert. Í anda jafnréttislaga, nr. 10/2008, hefur verið komið á jafnréttisstefnu innan lögreglunnar. Lögð hefur verið áhersla á að fjölga konum innan stéttarinnar með því að fjölga þeim í Lögregluskólanum en þær skila sér ekki til áframhaldandi starfa innan stéttarinnar.

Það er þekkt staðreynd að á vinnustöðum þar sem kynjahlutföll eru jöfn líður fólki betur en þar sem það er ekki. Þegar fólki líður vel þarf það ekki að angra aðra. Því miður er þetta ástand ekki eingöngu bundið við lögregluna. Í samfélaginu okkar viðgengst ofbeldi sem við eigum ekki að sætta okkur við, ofbeldi sem bæði karlar og konur verða fyrir.

Hæstv. forseti. Nú ætla ég að leyfa mér að segja eins og sagt er í minni sveit þegar mikið liggur við: Hvers lags er þetta eiginlega? Viljum við hafa þetta svona? Nei, við viljum það ekki. En þrátt fyrir allar lagasetningar, átaksverkefni og yfirlýsingar erum við á óásættanlegum stað. Eina ráðið sem ég kann við þessu er að við hvert og eitt tökum okkur til og ræðum í okkar hópum hvernig við viljum haga samfélagi okkar. Hvað samþykkjum við og hvað ekki? Hjálpum hvert öðru og fáum já áður en lengra er haldið.