143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

staða kvenna innan lögreglunnar.

[16:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum stöðu kvenna innan lögreglunnar. Eins og minnst var á áðan kom það fram í fréttum að Ísland er í fyrsta sæti yfir þau lönd þar sem jafnréttið er mest í heimi samkvæmt könnun World Economic Forum. Það virðist því miður ekki eiga við þegar horft er til stöðu kvenna innan lögreglunnar samkvæmt nýlegri skýrslu um meðal annars vinnumenningu innan lögreglunnar. Þar má lesa um hluti sem engum er til sóma hvað varðar gagnkvæma virðingu og jafnrétti innan lögreglustéttarinnar.

Ég ætla að grípa niður í nokkra kafla sem vekja athygli.

Ljóst er að hlutur kvenna í lögreglunni hefur ekki aukist sem skyldi og því er mikilvægt að skoða hugsanlegar ástæður þess. Framgangur kvenna hefur verið lítill sem enginn síðustu árin og er mikið áhyggjuefni hvað veldur því. Konur upplifa að þær fái ekki framgang í starfi líkt og karlar og nefna flestar lögreglukonur það sem eina af ástæðunum fyrir því að þær hætta í lögreglunni.

Af lestri skýrslunnar má sjá að mikið er um einelti í lögreglunni. Ein af hverjum fjórum konum telur sig hafa orðið fyrir einelti. Einnig kemur fram að sjö af hverjum tíu gerendum hafi verið karlkyns yfirmaður. Tæplega þriðjungur kvenna í lögreglunni hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi sínu og kynferðisleg áreitni virðist sjaldnast vera aðeins eitt tilvik heldur gerist það oft.

Hér eru aðeins nefnd nokkur atriði sem þarf að hafa verulegar áhyggjur af og ekki er líðandi að viðgangist í lögreglustéttinni frekar en annars staðar í samfélaginu. Við eigum greinilega langt í land með að ná raunverulegu jafnrétti kynjanna á þessum vettvangi sem annars staðar.

Það er því verk að vinna og treysti ég því (Forseti hringir.) að hæstv. innanríkisráðherra skoði þessi mál gaumgæfilega og komi með tillögur til úrbóta.