143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

staða kvenna innan lögreglunnar.

[16:07]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég þakka umræðuna og lýsi ánægju minni yfir undirtektum allra þingmanna og auðvitað helst hæstv. innanríkisráðherra sem ég trúi og treysti að taki á málinu af myndugleik. Ég var ánægð að heyra að hún hefur hugmyndir um aðgerðaáætlun og stefnu í þessum málum. Það er til góðs, en það er oftast þannig í svona málum og eins stefnu fyrirtækja og hvar sem er þar sem við höfum háleitar hugmyndir og ætlum að ganga til góðs að innleiðingin verður stóra vandamálið. Það er það sem ég hef áhyggjur af. Ég vil því brýna hæstv. ráðherra, hún er með framkvæmdina í sínum höndum, til að vera beitt því að þetta lagast ekkert af sjálfu sér. Allir virðast vera sammála en samt sem áður er staðan svona.

Þetta er erfitt mál út af því að lögreglan er auðvitað eins og aðrir vinnustaðir kunningjasamfélag, fólk er þar lengi í störfum sínum og það þarf mikið til að brjóta hlutina upp.

Til að bregðast við því sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson velti fyrir sér, hvort konur sæktust í þessi efri stig, þá kemur það einmitt fram í skýrslunni að jafnt hlutfall karla og kvenna vill fá stöðuhækkun eða um það bil, þ.e. (Forseti hringir.) 55,8% karla og 50% kvenna, þannig að sú mýta þar sem oft er látið í veðri vaka að konur sæki ekki um og vilji ekki fara hærra á ekki við hér.