143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

staða kvenna innan lögreglunnar.

[16:09]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil í lokin þakka þessa umræðu. Ég þakka þingmönnum sérstaklega fyrir mjög afdráttarlausar skoðanir og stuðning við þær breytingar sem nauðsynlegar eru. Það skiptir líka máli fyrir framkvæmdarvaldið að ljóst sé til hvers hugur þingheims stendur í þessu máli og ég held að hann sé alveg skýr. Skilaboð okkar allra til lögreglunnar eru alveg skýr, að við viljum sjá þetta hlutfall breytast og við viljum sjá breytingar verða þannig að almenningur, eins og ég sagði áðan, njóti jafnt karla og kvenna við þessa mikilvægu þjónustu.

Ég held nefnilega að það sem margir hafa nefnt hér sé ríkari þáttur en við viljum horfast í augu við og það eru viðhorf okkar allra, viðhorf lögreglunnar og viðhorf karlmanna í þessari stétt en líka viðhorf almennings í kannski of miklum mæli sem lítur á störf í lögreglu sem störf sem henti karlmönnum betur en konum. Það er ímyndin á lögreglustarfinu sem gerir það að verkum að einhverjir telja að það sé farsælla og vitna þá t.d. til líkamsburða eins og það sé eiginleikinn sem skipti mestu máli í lögreglustarfinu. Þá held ég að menn vanmeti mjög mikið og leggi jafnvel rangt mat á það hvað felst í því að sinna þessari þjónustu og hvað það er mikilvægt að að henni komi fjölbreyttur hópur fólks og ólíkir einstaklingar, ég tala nú ekki um bæði kvenkyns og karlkyns. Ég held að það sé atriði sem við eigum öll að staldra við og líta í eigin barm hvað það varðar.

Ég treysti því að lögreglunni sé mikil alvara með því að taka á þessu máli. Ég veit það líka að lögreglan, eins og var komið inn á hér áðan, nýtur mikils trausts og til að viðhalda því trausti er mikilvægt að þessu verði breytt. Ég held að við hljótum öll að geta verið sammála um það.

En í lokin vegna þess að nefnt var að viðhorfin væru til staðar en við hefðum ekki tækifæri þá höfum við tækifæri núna. Ef Alþingi samþykkir 500 millj. kr. viðbótarframlag til löggæslunnar á Íslandi þá er það tæki til að ráða fleiri lögreglumenn og fleiri lögreglukonur. Það er tæki sem menn eiga að líta á núna og nýta til að fjölga konum í lögreglunni og bæta um leið þjónustuna sem almenningur nýtur af hálfu lögreglunnar.